EN

Georges Bizet: Stúlkan frá Arles

Georges Bizet (1838–1875) var eitt mesta undrabarn 19. aldarinnar í tónlist. Hann var tekinn inn í tónlistarháskóla Parísar tveimur vikum fyrir tíu ára afmæli sitt og þótti framúr­ skarandi nemandi; bæði Liszt og Berlioz luku lofsorði á píanóleik hans. Nítján ára gamall hlaut hann fyrstu verðlaun í virtustu tónsmíðakeppni heims á þeirri tíð, Prix de Rome, sem tryggði sigurvegurum dvöl á Ítalíu um þriggja ára skeið. Þrátt fyrir alla hæfileikana reyndist Bizet erfitt að koma sér á framfæri eftir að heim var komið, og óperur hans – Perlukafararnir og Carmen – vöktu litla hrifningu fyrr en að honum látnum.

Líklega varð fjárskortur til þess að Bizet tók að sér að semja tónlist við leikritið L’Arlésienne eftir skáldið Alphonse Daudet árið 1872. Leikritið þótti – og þykir raunar enn – rýrt að gæðum og hefur ekki staðist tímans tönn. Sagan segir frá ungum bónda sem elskar stúlku frá Arles, en hún hrífst af vafasömum hrossa­ kaupmanni. Bóndinn reynir að gleyma stúlkunni og trúlofast annarri, en þá rekst hann fyrir einskæra tilviljun á hrossakaup­ manninn og fær sá fundur svo á hann að hann sviptir sig lífi.

Leikritið naut lítilla vinsælda og gleymdist fljótt en nú bar svo við að tónlist Bizets vakti mikla hrifningu og þótt raunar hið eina eftirtektarverða við uppfærsluna. Því tók Bizet saman nokkur atriði úr leikhústónlistinni og útsetti sem svítu. Árið 1879, fjórum árum eftir lát tónskáldsins, gerði samverkamaður hans Ernest Guiraud aðra svítu upp úr tónlistinni enda var af nógu að taka; númerin sem Bizet samdi við leikrit Daudets eru alls 27 talsins, flest raunar nokkuð stutt. Í kvöld hljóma kaflar úr svítunum báðum. Vinsælasti þátturinn er eflaust Farandole, þar sem líflegt þjóðlag frá Provence er klætt upp í glæsilegan hljómsveitarbúning.