EN

Ígor Stravinskíj: Dumbarton Oaks

Igor Stravinskíj (1882–1971) fæddist í Oranienbaum sem liggur við Finnska flóa, vestur af St. Pétursborg. Faðir hans var bassasöngvari við Mariinsky-leikhúsið í Pétursborg og kynntist Stravinskíj mörgum af helstu tónlistarmönnum samtímans og leikhúsheiminum í gegnum föðurinn. Stravinskíj gerðist nemandi Rimskys-Korsakov árið 1903 og fyrir atbeina kennarans kynntist hann Sergei Diaghilev sem síðar fól honum að semja balletttónlist við söguna um Eldfuglinn (1910) fyrir Ballets Russes — Rússneska ballettinn í París. Í kjölfarið fylgdu ballettarnir Petrjúska (1911) og Vorblótið (1913) sem staðfestu stöðu Stravinskíjs sem eins fremsta tónskálds af yngri kynslóðinni. Stravinskíj bjó síðan til skiptis í Sviss og Frakklandi en hélt áfram að semja tónlist fyrir Diaghilev— ballettana Pulcinella (1920), Mavra (1922), Renard (1922), Les Noces (1923), Ödipus Rex (1927) og Appollo (1928). Hann settist að í Frakklandi árið 1920 og gerðist franskur ríkisborgari 1934. Á þessum árum breyttist rússneskur stíll hans yfir í hinn nýklassíska stíl. Fjölskylduharmleikur (dóttir Stravinskíjs, eiginkona og móðir dóu innan átta mánaða tímabils) og upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar, urðu til þess að Stravinskíj flutti til Bandaríkjanna haustið 1939 þar sem hann bjó til dauðadags.

Igor Stravinskíj hafði þegar getið sér gott orð í nýja heiminum og ferðast þangað þrisvar sinnum áður.  Í lok apríl 1937 stýrði hann frumflutningi á ballettinum Jeu de Cartes í Metropolitan-óperunni í New York auk tveggja eldri verka. Markaði þetta upphaf farsæls samstarfs hans og ballettmeistarans Georges Balanchine. Í þeirri ferð ferðaðist hann m.a til Washington D.C. þar sem hann kynntist hjónunum Mildred og Robert Bliss sem buðu honum á sveitasetur sitt til að sýna honum óspillt landslagið í Dumbarton Oaks. Hjónin, sem voru miklir listunnendur, notuðu einnig tækifærið til að biðja tónskáldið um að semja verk fyrir sig í tilefni 30 ára brúðkaupsafmælis þeirra. Stravinskíj hóf vinnu við verkið í Sviss síðar þetta vor og lauk því í París 29. mars árið eftir. Konsertinn í Es-dúr var síðan frumfluttur á einkatónleikum á Dumbarton Oaks-setrinu 8. maí 1938. Stjórnaði franska tónskáldið Nadia Boulanger flutningnum en höfundurinn stjórnaði síðan fyrsta opinbera flutningnum í París nokkrum vikum síðar. Konsert í Es-dúr — Dumbarton Oaks, er samið undir sterkum áhrifum frá Brandenborgarkonsertum Bachs og skrifaði fyrir flautu, klarínettu, fagott, 2 horn, 3 fiðlur, 3 víólur, 2 selló og 2 kontrabassa. Er þetta síðasta verkið sem Stravinskíj lauk við í Evrópu.