EN

Johannes Brahms: Sinfónía nr. 1

„Ég mun aldrei semja sinfóníu! Þú getur ekki gert þér í hugarlund þér hvernig það er að heyra slíkan risa þrammandi fyrir aftan sig.“ Þannig ritaði Johannes Brahms (1833–1897) tæplega fertugur að aldri, fullur örvæntingar yfir því hvílík ábyrgð fylgdi því að feta í fótspor Beethovens. Sinfóníur þess síðarnefnda voru tónskáldum 19. aldarinnar mikilfengleg fyrirmynd og hvergi sést hinn langi skuggi Beethovens betur en í fyrstu sinfóníu Brahms. Brahms var kominn á fimmtugsaldur þegar hann lauk við fyrstu sinfóníuna; ekkert annað „sinfónískt“ tónskáld á 19. öld lét bíða jafn lengi eftir frumraun sinni í þessu formi. Flestir voru þó sammála um að biðin hefði verið þess virði. Þegar Hans von Bülow kallaði verkið „tíundu sinfóníu Beethovens“ var það meint sem mesta hrós sem hugsast gat. 

Fram að þessu hafði Brahms notað hvert tækifæri til að þjálfast í hinni sinfónísku list án þess að þurfa að óttast beinan samanburð við hina Beethovensku fyrirmynd. Píanókonsertinn í d-moll er hálfgildings sinfónía enda hafði Brahms upphaflega ætlað að gera sinfóníu úr tónefninu en skipti svo um skoðun og bætti píanói við. Tvær serenöður fyrir hljómsveit höfðu einnig verið honum hollur skóli, sem og hljómsveitartilbrigðin við „stef eftir Joseph Haydn“ frá 1873. Með fyrstu sinfóníu sinni steig Brahms loks skrefið til fulls. Bülow hafði sannarlega rétt fyrir sér – áhrif Beethovens eru greinileg frá fyrsta takti til hins síðasta. Brahms kallast sérstaklega á við fimmtu sinfóníu Beethovens (sem einnig er í c-moll) og níundu sinfóníuna. 

Strax frá fyrsta takti einkennist tónlistin af dramatískum þunga. Brahms var ekki gjarn á að byrja tónsmíðar sínar á hægum inngangi en hér er hæg byrjunin fullkomlega viðeigandi. Maður heyrir næstum hjartslátt og kvíða tónskáldsins í dynjandi pákum og tjáningarfullum strengjalínum. Skyndilega þynnist vefurinn og stefnan er óljós um stund, nokkrir samhengislausir tónar hér og þar, en innan skamms snýr upphafstónlistin aftur og leiðir inn í kraftmikinn aðalkaflann. Þar gengur á ýmsu. Tónlistin er kraftmikil, ástríðufull, jafnvel drungaleg á köflum. Það á ekki síst við um úrvinnsluhlutann um miðbikið, með snörpum styrkleikabreytingum úr sterkasta forte niður í pianissimo. 

Ljúfir miðkaflarnir eru kærkomin hvíld eftir dramatík upphafsþáttarins. Annar kafli er sérlega bjartur og hefst á syngjandi stefi í fiðlum, sem skömmu síðar breytist í undirleik að nýrri óbóhendingu. Þetta er upphafin himnasælumúsík, blíð og ástríðufull til skiptis. Þriðji þáttur sinfóníunnar er sá sem minnst á skylt við Beethoven. Hann er yfirvegaður og tiltölulega hægur, og minnir jafnvel á hin angurværu intermezzo sem Brahms samdi fyrir píanó á efri árum sínum. 

Lokaþátturinn tekur upp þráðinn þar sem þeim fyrsta lauk. Tónlistin er leitandi, stefnulaus, prófar hitt og þetta en dettur sífellt niður í sama farið. Heimur Níundu sinfóníu Beethovens er ekki langt undan: þegar einleikshorn brýst í gegn með hendingu sem Brahms hafði fyrst nóterað í svissnesku Ölpunum löngu áður eru áhrifin harla kunnugleg: „O Freunde, nicht diese Töne!“ Hornleiknum lýkur á eins konar spurningu sem strengirnir svara. Nú er öllum áhyggjum ýtt til hliðar og björtu sextán takta stefi í C-dúr svipar óneitanlega nokkuð til Óðsins til gleðinnar. Þegar kunningi Brahms benti honum á skyldleikann brást hann ókvæða við: „Hvaða bjáni sem er getur nú heyrt það.“ 

Ekki er þó öllu lokið enn. Brahms var meistari úrvinnslunnar eigi síður en Beethoven og nú tekur við ferðalag þar sem tónlistin gengur í gegnum hin ýmsu þrep óvissunnar. Stundum heillar hún okkur með fegurð sinni og einfaldleika en skýin hrannast upp þegar minnst varir. Það er ekki fyrr en í stórfenglegu niðurlaginu sem sigurinn er í höfn og ekki aðeins hvað framvindu verksins sjálfs snertir. Brahms hafði unnið sigur á eigin efasemdum og tókst héðan í frá óhræddur á við hið sinfóníska form.