EN

John Speight: Sinfónía nr. 5

Andante poco misterioso – Allegro
Interlude I (Lento e dolente)
Allegro molto
Interlude II (Lento e dolente)
Allegro vivace
Interlude III (Lento e dolente)
Andante – Allegro – Largamente – Calmo – Largamente – Allegro vivo

John Anthony Speight fæddist á Englandi árið 1945. Hann stundaði nám í söng og tónsmíðum við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum og sótti auk þess einkatíma til tónskáldsins Richards Rodney Bennett. Árið 1972 fluttist Speight til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika, komið fram með mörgum kammerhópum og sungið ýmis óperuhlutverk á íslensku sviði, auk þess sem hann hefur kennt söng og tónfræði við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

John Speight hefur samið hátt í 200 tónverk, stór og smá, allt frá einleiks- og einsöngsverkum upp í hljómsveitarverk. Önnur sinfónía hans var valin til flutnings á alþjóðlegu tónlistarhátíðinni ISCM (International Society for Contemporary Music) árið 1992 og tónsmíðar eftir hann hafa hljómað á Norrænum músíkdögum, á Listahátíð í Reykjavík og á Myrkum músíkdögum. Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir jólaóratoríu sína, Barn er oss fætt, sem var valin tónverk ársins 2002.

Speight lýsir tildrögum fimmtu sinfóníu sinnar svo: „Sinfónían varð til á löngum tíma, eða á árunum 2009–2016. Ástæðan er sú að á sama tíma var ég með tvö önnur stór verk í smíðum, óperu og fiðlukonsert. Á þessum sjö árum létust nokkrir góðir fjölskylduvinir og því ákvað ég að setja þrjú stutt millispil til minningar um þessa góðu vini mína á milli kafla sinfóníunnar. Þessi ljóðrænu millispil eru skrifuð fyrir einleikshljóðfæri auk strengja — það fyrsta er fyrir trompet, annað fyrir franskt horn og það þriðja fyrir enskt horn og víólur. Aðalkaflarnir fjórir byggjast að nokkru leyti á kórverkinu O sacrum convivium, sem ég samdi árið 2004, og mynda í raun eina stóra heild sem skiptist í fernt.“