EN

Maurice Ravel: Le tombeau de Couperin

Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á sumarið 1914 vildi Maurice Ravel (1875–1937) ólmur komast á víglínuna og berjast fyrir fósturjörðina. Ekki voru læknar franska hersins á því að hleypa Ravel í gegn. Hann var óvenju lágvaxinn, ekki nema um 160 cm á hæð, og vantaði tvö kíló upp á að ná þeirri líkamsþyngd sem krafist var af liðsmönnum franska hersins. Þó leið ekki á löngu þar til þörf var fyrir krafta hans, raunar á nokkuð annan hátt. Vorið 1915 var Ravel ráðinn til að aka sjúkrabíl fyrir 13. herdeildina, og hann skildi eftir kynstrin öll af óloknum skissum á heimili sínu. Þeirra á meðal voru hugmyndir að píanósvítu sem höfðu fæðst árinu áður, en sem hann lauk ekki við fyrr en árið 1917. Þá andaðist móðir hans, en þau höfðu verið afar náin og andlát hennar var Ravel mikið áfall. Ekki leið á löngu þar til hann var leystur frá störfum vegna heilsubrests, og tók þá þegar til við að fullgera svítuna sem varð síðasta einleiksverk hans fyrir píanó.

Atburðir stríðsins höfðu sett mark sitt á Ravel, einnig í tónsmíðunum. Svítan átti að vera hylling til barokkmeistarans François Couperin, sem lagði stóran skerf til hljómborðstónlistar 18. aldarinnar. Nú varð verkið öðrum þræði minning um hörmungarnar. Ravel tileinkaði hvern kafla minningu nafngreindra vina sinna sem höfðu týnt lífi í heimsstyrjöldinni. Svítan er í sex þáttum í upphaflegri gerð, en skömmu eftir frumflutninginn útsetti tónskáldið fjóra kafla hennar fyrir hljómsveit og voru þeir frumfluttir í París árið 1920.

Ravel var flestum öðrum fremri þegar kom að því að útsetja fyrir hljómsveit; blæbrigði hvers hljóðfæris léku í höndum hans eins og útsetning hans á Myndum á sýningu eftir Músorgskíj ber með sér, svo ekki sé minnst á hið víðfræga Bolero. Í Tombeau de Couperin er skýrleikinn í fyrirrúmi og jafnvægi fullkomið milli ólíkra radda; Ravel lætur sér nægja fremur litla hljómsveit þar sem strengir og einleiksblásarar eru í forgrunni. Að forleiknum loknum taka við þrír barokkdansar. Annar kaflinn er forlane, dans frá Norður-Ítalíu sem sagt er að hafi verið vinsæll meðal gondólaræðara í Feneyjum. Í menúettinum fær óbóið einleikshlutverk, og sama gildir raunar um prelúdíuna. Lokaþátturinn, rigaudon, byggir á gömlum dansi frá Provence sem stundum skýtur upp kollinum í verkum Rameaus og Bachs, og sem Edvard Grieg hafði raunar einnig notað í Holberg-svítu sinni.