EN

David Danzmayr

Hljómsveitarstjóri

Austurríski hljómsveitarstjórinn David Danzmayr er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Zagreb og hefur vakið mikla hrifningu á fyrri tónleikum sínum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann stundaði nám í píanóleik og hljómsveitarstjórn við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og útskrifaðist þaðan með láði. Hann hlaut síðar styrk Gustav Mahler-æskuhljómsveitarinnar til náms hjá Claudio Abbado og Pierre Boulez og nam einnig hjá Leif Segerstam við Sibeliusarakademíuna í Helsinki. Danzmayr vann til verðlauna í alþjóðlegu hljómsveitarstjórakeppninni sem kennd er við rússneska hljómsveitarstjórann Nikolai Malko og komst einnig í úrslit í Georg Solti-keppninni í Chicago.

Danzmayr var um þriggja ára skeið aðstoðarhljómsveitarstjóri Skosku þjóðarhljómsveitarinnar í Glasgow og stjórnaði hljómsveitinni á tímabilinu oftar en 70 sinnum víða um Skotland, m.a. á hinni þekktu St. Magnus-tónlistarhátíð á Orkneyjum. Hann hefur síðan verið fastur gestastjórnandi hljómsveitarinnar auk þess að stjórna mörgum öðrum þekktum hljómsveitum, þar á meðal City of Birmingham Symphony Orchestra, Sinfóníuhljómsveitinni í Basel, Mozarteumhljómsveitinni í Salzburg, hljómsveit Skosku óperunnar og Bruckner Orchester Linz. Danzmayr hefur lagt mikla rækt við tónlist 21. aldar og er tónlistarstjóri tónlistarhópsins Ensemble Acrobat í Salzburg og fastur gestastjórnandi hins austurríska Ensemble für neue Musik.