EN

Fréttasafn

Fyrirsagnalisti

24. apríl 2017 : Nýr diskur með íslenskri hljómsveitartónlist

 

Nýr diskur með íslenskum hljómsveitarverkum í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands er kominn út.

Á honum má heyra verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Mariu Huld Markan Sigfúsdóttur, Hlyn A. Vilmarsson, Þuríði Jónsdóttur og Daníel Bjarnason sem jafnframt er hljómsveitarstjóri. Diskurinn hefur fengið góðar viðtökur erlendis og er fáanlegur í verslunum Eymundssonar, Smekkleysu, 12 tónum og Epal í Hörpu.

Lesa meira

4. apríl 2017 : Streymt beint frá tónleikum í Gautaborg 19. apríl

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð til Gautaborgar og leikur þar í hinu víðfræga tónleikahúsi borgarinnar 19. apríl. Tónleikunum verður streymt hér á vef hljómsveitarinnar kl. 17:30 að íslenskum tíma.


Víkingur Heiðar Ólafsson er einleikari og hljómsveitarstjóri er Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar.

Lesa meira

4. apríl 2017 : Vögguvísur frá öllum heimshornum

Í þessari viku heldur Sinfóníuhljómsveitin sannkallaða heimstónleika og leikur vögguvísur frá ólíkum heimshornum í Norðurljósum. Tónleikarnir eru afrakstur af fjölþjóðlegu fræðsluverkefni sem hljómsveitin hefur starfað að í samvinnu við Austurbæjarskóla, Fellaskóla og Kársnesskóla.

Vögguvísurnar koma meðal annars frá Serbíu, Filippseyjum, Rússlandi, Indlandi, Íslandi og víðar úr heiminum. Nú verður útkoman kynnt á sérstökum skólatónleikum með söng, dansi, rappi og hljóðfæraleik. 

Lesa meira

17. mars 2017 : Osmo Vänskä útnefndur heiðursstjórnandi Sinfóníunnar

Finnski hljómsveitarstjórinn Osmo Vänskä hefur verið útnefndur heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Frammistaða Vänskä með hljómsveitinni hefur vakið mikla eftirtekt og er það mat manna að hann lyfti sveitinni í nýjar hæðir með túlkun sinni. Osmo hefur gegnt stöðu aðalgestastjórnanda frá árinu 2014 en var einnig aðalstjórnandi hljómsveitarinnar á árunum 1993-96.

Lesa meira

15. mars 2017 : Tilnefnd til FÍT-verðlaunanna

Sinfóníuhljómsveit Íslands er tilnefnd til FÍT-verðlaunanna í þremur flokkum; menningar-viðburðarmörkun, stakar auglýsingar fyrir prentmiðla og veggspjöld.

Auglýsingastofan Döðlur hefur unnið markaðsefni- og kynningarefni Sinfóníunnar og óskum við þeim innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Lesa meira

10. mars 2017 : Osmo Vänskä stjórnar tvennum tónleikum 16. og 17. mars


Fimmtudaginn 16. mars stjórnar Vänskä sjöundu sinfóníu Beethovens og Yevgeni Sudbin leikur píanókonsert nr. 23 eftir Mozart og föstudaginn 17. mars stjórnar hann sinfóníu nr. 2 eftir Jan Sibelius í Föstudagsröðinni.

Lesa meira

8. mars 2017 : Bein útsending frá tónleikum með Paul Lewis á fimmtudaginn 9. mars

Tónleikum Sinfóníunnar verður streymt í beinni útsendingu hér á vef hljómsveitarinnar á fimmtudaginn 9. mars 

Á tónleikunum leikur enski verðlaunapíanistinn Paul Lewis annan og þriðja píanókonsert Beethovens auk þess sem hljómsveitin mun flytja Kraftaverkssinfóníuna eftir Joseph Haydn.

Streymið hefst kl. 19:30 hér á vef Sinfóníunnar.

Lesa meira

3. mars 2017 : Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands valin bjartasta vonin

Ungsveitin var valin bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum sem haldin voru í Hörpu 2. mars síðastliðinn. Sinfóníuhljómsveit Íslands er stolt af frábærum árangri Ungsveitarinnar en eitt mikilvægasta hlutverk sinfóníuhljómsveita um allan heim er að miðla þekkingu sinni til nýrra kynslóða hljóðfæraleikara.

Ungsveitin hélt sína fyrstu tónleika árið 2009 og hefur síðan þá haldið árlega sinfóníutónleika. Á næsta starfsári flytur hún Vorblót Stravinskíjs undir stjórn Daniels Raiskin.

Lesa meira

1. mars 2017 : Sinfóníuhljómsveit Íslands í Vestmannaeyjum

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð til Vestmannaeyja með glæsilega dagskrá í farteskinu. Hljómsveitin heldur tónleika í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum 1. mars kl. 19.30. 

Einleikari kvöldsins verður Sigrún Eðvaldsdóttir og hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason.

 

Lesa meira

20. febrúar 2017 : Tortelier sæmdur riddaraorðu franska lýðveldisins

Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var sæmdur einni æðstu heiðursorðu franska lýðveldisins við hátíðlega athöfn í Lundúnum 9. febrúar síðastliðinn. 

Riddaraorðan sem Tortelier hlaut nefnist Chevalier de l'Ordre national de la Légion d'honneur og er veitt þeim sem hafa með störfum sínum borið hróður Frakklands til annarra landa.

Lesa meira
Síða 1 af 10