EN

Vladimir Ashkenazy

Heiðursstjórnandi

Vladimir Ashkenazy er óumdeilanlega frægastur íslenskra ríkisborgara í klassíska tónlistarheiminum.

Hvarvetna á byggðu bóli bera menn óblandna virðingu fyrir umfangsmiklu starfi hans og djúphugulu viðhorfi til tónlistarinnar. Í ríflega hálfa öld hefur hann verið í hópi fremstu hljóðfæraleikara heims, eða allt frá því hann vann 2. verðlaun í Chopin-keppninni í Varsjá 1955 og Queen Elizabeth-keppnina í Brüssel ári síðar.

Undanfarna áratugi hefur orðstír Ashkenazys sem hljómsveitarstjóra stöðugt vaxið, eða allt frá því að hann steig sín fyrstu skref á þeirri braut með Sinfóníuhljómsveit Íslands snemma á áttunda áratugnum. Hann hefur verið aðalstjórnandi hjá virtum hljómsveitum á borð við Konunglegu fílharmóníusveitina í London og Tékknesku fílharmóníusveitina. Fyrr á þessu ári tók Ashkenazy við stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar í Sidney í Ástralíu, en hann hefur auk þess unnið með flestum frægustu hljómsveitum heims sem gestastjórnandi.

Ashkenazy á einkar glæsilegan feril að baki í hljóðverinu. Hann hefur hljóðritað flest höfuðverk píanóbókmenntanna, og meðal nýjustu hljóðritana hans eru prelúdíur og fúgur Sjostakovitsj, og Diabelli-tilbrigði Beethovens. Kammertónlist er einnig áberandi á útgáfulista hans og ekki síður fjölmargar hljómsveitarupptökur, m.a. heildarútgáfur á sinfóníum Prokofíevs, Sibeliusar og Rakmaninoffs. Þegar á allt er litið er óhætt að fullyrða að fáir tónlistarmenn hafi gefið út jafn margar og rómaðar hljómplötur.

Í janúar 2001 stjórnaði Vladimir Ashkenazy Sinfóníuhljómsveit Íslands á ný eftir nokkurt hlé. Ári síðar var hann gerður að heiðursstjórnanda hljómsveitarinnar og hefur síðan snúið aftur á hverju starfsári og stjórnað meistaraverkum tónbókmenntanna, m.a. Draumi Gerontiusar eftir Elgar, Stríðssálumessu Brittens, 9. sinfóníu Mahlers, hátíðarmessu Beethovens og nú Manfreð-sinfóníu Tsjajkovskíjs.