EN

Dima Slobodeniouk

Hljómsveitarstjóri

 

Dima Slobodeniouk tók við starfi aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í Lahti og listræns stjórnanda Sibelius-hátíðarinnar haustið 2016. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir starf sitt sem aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Galísíu en því starfi hefur hann gegnt frá árinu 2013. Hann fæddist í Moskvu og stundaði fiðlunám við tónlistarháskóla borgarinnar og síðar við Sibelius-akademíuna í Helsinki hjá Olgu Parhomenko. Hann lærði hljómsveitarstjórn undir leiðsögn Leif Segerstam og Jorma Panula, auk þess sem hann sótti tíma hjá Ilya Musin og Esa-Pekka Salonen.

Slobodeniouk kemur stöðugt fram með fleiri frábærum hljómsveitum á heimsvísu. Á síðasta tónleikaári stjórnaði hann meðal annars Fílharmóníuhljómsveit Lundúna, Þjóðarhljómsveit Frakklands, Fílharmóníuhljómsveit Helsinki og Finnsku útvarpshljómsveitinni. Í febrúar á næsta ári mun hann stjórna Fílharmóníuhljómsveit Berlínar í fyrsta sinn. Einleikararnir sem hann starfar með eru Íslendingum að góðu kunnir; til dæmis hefur hann nýverið haldið tónleika með Paul Lewis og Baibu Skride, en bæði eru væntanleg hingað til lands snemma á næsta ári, auk þess að stjórna konsertum með Nikolai Lugansky og Yvgeny Sudbin sem báðir léku með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrravetur.

Slobodeniouk er áhugasamur um að starfa með ungu tónlistarfólki og hefur starfað með nemendum við Verbier-hátíðina undanfarin ár. Hann hljóðritar m.a. fyrir sænska plötuforlagið BIS, og hefur til dæmis hljóðritað disk með verkum eftir Sebastian Fagerlund með Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar. Hann hefur einu sinni áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, í mars 2016. Þá var á efnisskránni svíta Sibeliusar úr Ofviðrinu, fyrsti píanókonsert Rakhmanínovs og sinfónía nr. 1 eftir Beethoven.