EN

Eivør Pálsdóttir

Söngkona og tónskáld

Með framúrskarandi og seiðandi sviðsframkomu og flutningi hefur söngkonan og lagasmiðurinn Eivør Pálsdóttir sungið sig inn í hug og hjörtu Íslendinga. Þessi hæfileikaríka færeyska tónlistarkona er handhafi fjölda verðlauna og má meðal annarra nefna Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2003 sem besta söngkonan og besti flytjandinn, Færeyingur ársins árið 2004, Grímuverðlaunin árið 2005 fyrir tónlist og flutning í Úlfhamssögu og Dönsku tónlistarverðlaunin árið 2006. 

Eivør, hljómsveit hennar og Sinfóníuhljómsveit Íslands sameinuðu krafta sína á tónleikum í febrúra 2015 og fluttu meðal annars lög af plötunum Room sem kom út 2012 og Bridges sem kom út 2015.  Lagasmíðar söngkonunnar spanna mikla breidd í tilfinningum og túlkun þar sem ástin, söknuður, minningar, frelsi og náttúra eru yrkisefni.

Síðast kom Eivør fram með Sinfóníuhljómsveitinni á Jólatónleikum sveitarinnar 2016. Nú snýr hún aftur á svið Eldborgar með hljómsveitinni með Skrímslið litla systur mína þar sem hún semur tónlistina og syngur.