EN

Elfa Rún Kristinsdóttir

Fiðluleikari

Elfa Rún Kristinsdóttir er fædd á Akureyri árið 1985. Hún útskrifaðist af Diplómabraut tónlistardeildar Listaháskóla Íslands vorið 2003 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og Auðar Hafsteinsdóttur. Frá hausti 2003 stundaði Elfa Rún nám við Tónlistarháskólann í Freiburg undir handleiðslu Rainers Kussmaul, en hún lauk námi þaðan í febrúar 2007 með hæstu einkunn. Hún býr nú í Berlín. 

Elfa Rún hefur leikið með ýmsum kammersveitum og -hópum síðastliðin ár. Hún er fastur meðlimur Kammersveitarinnar Ísafoldar og Solistenensemble Kaleidoskop í Berlín en hefur einnig leikið með Balthasar Neumann Ensemble, Freiburger Bachorchester, Feldkirch Festival Orchester og Camerata Stuttgart auk fleiri kammerhópa í Þýskalandi. Elfa Rún hefur leikið einleik með ýmsum hljómsveitum og má þar helst nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Royal Chamber Orchestra Tokyo og Akademisches Orchester Freiburg.

Elfa Rún hlaut fyrstu verðlaun í Johann Sebastian Bach-tónlistarkeppninni í Leipzig 2006. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem „Bjartasta vonin“ árið 2006 og var einnig tilnefnd til hvatningarverðlauna Evrópska menningarsjóðsins Pro Europa. Elfa Rún hefur margsinnis leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, m.a. fiðlukonsert nr. 2 eftir Sergei Prokofíev og Árstíðirnar fjórar eftir Antonio Vivaldi og Astor Piazolla.