EN

Hélène Grimaud

Píanóleikari

Hélène Grimaud fæddist árið 1969 í Aix-en-Provence og hóf píanónám í tónlistarskóla í heimabæ sínum. Hún komst inn í Tónlistarháskólann í París aðeins 13 ára gömul og þegar hún var 18 ára bauð Daniel Barenboim henni að leika konsert með Orchestre de Paris. Hún debúteraði með Fílharmóníuhljómsveit Berlínar árið 1995, undir stjórn Claudios Abbado, og síðan hefur hún verið meðal fremstu píanista heims af sinni kynslóð. Hún hefur hlotið Cannes-verðlaunin, Midem-verðlaunin og Echo-verðlaunin, hefur ritað þrjár bækur og verið ötull talsmaður náttúruverndar. Hún hlaut heiðursorðu franska lýðveldisins á síðasta ári fyrir störf sín. Hún hefur hljóðritað fyrir Deutsche Grammophon frá árinu 2002, m.a. konserta eftir Mozart og Brahms. Nýjasti geisladiskur hennar, Water, hefur að geyma tónlist eftir níu tónskáld, m.a. Takemitsu, Berio, Ravel, Liszt og Debussy.

Grimaud hefur leikið með öllum helstu hljómsveitum heims. Nýverið lék hún konserta Beethovens með Santa Cecilia-hljómsveitinni undir stjórn Antonios Pappano, og með Valeríj Gergíev og Mariinsky-hljómsveitinni á White Nights-hátíðinni í Pétursborg. Þetta er í fyrsta sinn sem hún kemur fram á Íslandi.