EN

John Novacek

Píanóleikari

 

Bandaríski píanóleikarinn, tónskáldið og útsetjarinn John Novacek er eftirsóttur meðleikari og hefur leikið með fjölmörgum þekktum tónlistarmönnum, þar á meðal Josuha Bell, Matt Haimovitz, Cho-Liang Lin, Yo-Yo Ma, Truls Mörk að ógleymdri Leilu Josefowicz. Þá starfar hann reglulega með þekktum strengjakvartettum og ferðast víða með í píanótríóinu Intersection en tríóið skipa auk hans fiðluleikarinn Kaura Frautschi og sellistinn Kristina Reiko Cooper. Novacek hefur í gegnum tíðina tekið þátt í frumflutningi fjölda verka og unnið náið með þekktum tónskáldum, þar á meðal John Adams og John Williams. 

Novacek hefur leikið í helstu tónleikahúsum vítt og breitt um Bandaríkin, Evrópu og Japan og er tíður gestur á tónlistarhátíðum austan hafs og vestan. Þá hefur hann komið fram í vinsælum útvarps- og sjónvarpsþáttum í heimalandi sínu.

Tónsmíðar og útsetningar Johns Novacek hafa verið leiknar af Pacific-sinfóníunni, Harrison-strengjakvartettinum, Quattro Mani og tenórunum þremur svo dæmi séu tekin. Hann hefur leikið inn á ríflega 30 hljómdiska sem innihalda bæði einleiks- og kammerverk tónskálda allt frá Bach til Bartóks auk fjölda nýrri verka. Nokkrar af þessum plötum hafa hlotið viðurkenningar, m.a. diskurinn Road Movies sem var tilnefndur til Grammy-verðlauna fyrir bestan kammertónlistarfluting árið 2004 og Americana  sem tímaritið Gramophone heiðraði (Editors's Choise), en á þeim diski leikur Leila Josefovicz ásamt Novacek. Meðal útgáfufyrirtækja þessara diska má nefna Philips, Sony/BGM og EMI Classics. 

John Novacek hefur unnið til verðlauna í alþjóðlegum píanókeppnum sem kenndar eru við Leschitzky og Joanna Hodges. Hann stundaði píanónám í California State University í Northridge og er með Master of Music-gráðu frá Mannes College of Music í New York þar sem hann nam píanóleik, kammermúsik og tónsmíðar.