EN

John Storgårds

Hljómsveitarstjóri

 

Finnski hljómsveitarstjórinn John Storgårds er einn fjölmargra frábærra hljómsveitarstjóra sem komið hafa frá Finnlandi á undanförnum árum. Hann er aðalgestastjórnandi BBC-fílharmóníuhljómsveitarinnar sem og kanadísku Arts Centre-hljómsveitarinnar í Ottawa og listrænn stjórnandi Kammerhljómsveitarinnar í München og Kammerhljómsveit Lapplands. Storgårds er einnig eftirsóttur fiðluleikari og kemur reglulega fram sem slíkur. Storgårds gegndi stöðu konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar sænska Ríkisútvarpsins á árunum 1988–1995. Samhliða starfi konsertmeistarans sótti Storgårds tíma í hljómsveitarstjórn hjá Jorma Panula og Eri Klas. Þá var hann aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Helsinki frá 2008–2015. Meðal helstu viðburða í starfi Storgårds á yfirstandandi starfsári eru tónleikar með BBC-fílharmóníuhljómsveitinni á BBC-Proms. Þá stjórnar hann Gewandhaushljómsveitinni í Leipzig, Frönsku þjóðarhljómsveitinni og Útvarspshljómsveitinni í Berlín í fyrsta sinn á ferlinum.

Meðal hljómsveita sem Storgårds hefur unnið með er Sinfóníuhljómsveitin í Brimingham, Sinfóníuhljómsveit sænska útvarpsins og Fílharmóníuhljómsveitin í New York. Þá stjórnar hann reglulega öllum helstu hljómsveitum Norðurlanda. Af samstarfsmönnum hans úr röðum einleikara má nefna Colin Currie, Håkan Hardenberger, Kari Kriikku, Baiba Skride, Christian Tetzlaff og Jean-Yves Thibaudet.

Á verkalista Johns Storgårds eru meðal annars allar sinfóníur Sibeliusar, Nielsens, Bruckners, Brahms, Beethovens og Schumanns. Hann hefur stjórnað Fílharmóníuhljómsveitinni í Helskinki í „Schubert-hring“ með öllum sinfóníum Vínarmeistarans og í sögulegum „Mozart-hring“ flutti hann allar 54 sinfóníur Mozarts með Kammerhljómsveit Lapplands. Í óperuhúsum hefur Storgårds stjónað flestum óperum Mozarts og helstu óperum Richards Strauss og Verdis svo dæmi séu tekin.

Af fjölmörgum geisladiskum Storgårds má nefna heildarútgáfur á sinfóníum Sibeliusar og Nielsens fyrir Chandos-útgáfuna, geisladisk með verkum eftir Einojuhani Rautavaara sem var tilnefndur til Grammy-verðlauna og hlaut Gramophone-verðlaun árið 2012. Þá hlaut Storgårds ECHO Klassik-verðlaunin árið 2015 fyrir hljóðritun á konsertum fyrir theremin (rafmagnshljoðfæri frá fyrri hluta síðustu aldar) og horn eftir Kalevi Aho. Þá ber að nefna hljóðritun á verkum Hafliða Hallgrímssonar fyrir Ondine-­útgáfuna.