EN

Jun Märkl

Hljómsveitarstjóri

 

Jun Märkl er fæddur í München. Móðir hans var japanskur konsertpíanisti og faðir hans þýskur fiðluleikari og virtur konsertmeistari. Märkl lærði fiðluleik, píanóleik og hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Hannover og hlaut síðar frekari þjálfun hjá Sergiu Celebidache í München og Gustav Meier í Michigan. Árið 1986 vann hann hljómsveitarstjórakeppni Þýska tónlistarráðsins og ári síðar hlaut hann styrk frá Sinfóníuhljómsveitinni í Boston til náms við sumarakademíu hljómsveitarinnar í Tanglewood og voru kennarar hans þar Leonard Bernstein og Seiji Ozawa. Í kjölfarið fylgdu verkefni við óperuhús í Evrópu og var Märkl tónlistarstjóri Ríkisleikhússins í Saarbrücken 1991–94 og Þjóðarleikhússins í Mannheim 1994–2000.

Hann hefur um árabil stjórnað við Ríkisóperurnar í Vínarborg og München og við Semperóperuna í Dresden. Þá var hann fastráðinn við Bæversku ríkisóperuna til ársins 2006. Hann þreytti frumraun sína við Konunglegu óperuna í Lundúnum í Ragnarökum Wagners árið 1996 og tveimur árum síðar stjórnaði hann Il trovatore í Metropolitan óperunni í New York. Þá hefur hann stjórnað Niflungahring Wagners í Þýsku óperunni í Berlín og Nýja þjóðarleikhúsinu í Tókýó.

Jun Märkl stjórnar mörgum af helstu hljómsveitum veraldar. Hann hefur um árabil notið mikillar virðingar sem túlkandi sinfónískrar tónlistar og óperutónlistar af þýska skólanum og hefur einnig hlotið mikið lof fyrir túlkun sína á verkum Debussys, Ravels og Messiaens. Märkl var aðalstjórnandi Þjóðarhljómsveitarinnar í Lyon frá 2005–2011 og MDR-hljómsveitarinnar í Dresden til 2012. Hann gegndi einnig stöðu aðalstjórnanda Basknesku þjóðarhljómsveitarinnar um tveggja ára skeið. Með þessum hljómsveitum ferðaðist hann vítt og breitt um heiminn. Túlkun Märkls á verkum fjölmargra tónskálda má finna á hljóðritum þekktra hljómsveita fyrir hin ýmsu útgáfufyrirtæki og nýlega var hann heiðraður fyrir níu diska útgáfu á verkum Debussys. Märkl hefur einu sinni áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, haustið 2013 í verkum eftir Berlioz og Mendelssohn.