EN

Lucas og Arthur Jussen

Einleikarar

Bræðurnir Lucas og Arthur Jussen hófu píanónám í heimabæ sínum, Hilversum í Hollandi, og vöktu snemma athygli fyrir tónlistargáfur sínar. Árið 2005 tók hinn heimsfrægi píanisti Maria João Pires þá undir verndarvæng sinn og árið 2011 hlutu bræðurnir hin virtu Concertgebouw-verðlaun handa ungu hæfileikafólki í tónlist. Tveimur árum síðar fengu þeir áheyrendaverðlaunin á listahátíðinni í Mecklenburg-Vorpommern. 

Þeir hafa leikið með nærri öllum sinfóníuhljómsveitum Hollands, sem og leiðandi hljómsveitum víða um heim, svo sem Sinfóníuhljómsveitinni í Dallas, Fílharmóníusveitinni í Hong Kong, Kammersveitinni í London og Sinfóníuhljósmveitinni í Shanghai. Meðal hljómsveitarstjóra sem þeir hafa starfað með má nefna Jaap van Zweden, Claus Peter Flor, James Gaffigan, Sir Neville Marriner og Franz Brüggen. Bræðurnir hafa átt samstarf við ýmsa þekkta tónlistarmenn, þar á meðal kínverska píanóleikarann Lang Lang. Í oktbóber 2013 frumfluttu þeir verkið Together, fyrir tvö píanó, sem tónskáldið Theo Loenvendie samdi sérstaklega fyrir þá.

Lucas og Arthur Jussen hafa leikið nokkrum sinnum fyrir Beatrix fyrrum drottningu Hollands og voru í fylgdarliði Willem-Alexanders Hollandskonungs í opinberri heimsókn til Póllands árið 2014. Frá árinu 2010 hefur hið virta útgáfuforlag Deutsche Grammophon gefið út hljóðritanir þeirra, út eru komnir geisladiskar þar sem þeir spila tónlist eftir Schubert, Mozart og Beethoven og tveir geisladiskar bræðranna eru helgaðir franskri píanótónlist, á öðrum má heyra þá leika píanókonsert Poulencs í d-moll fyrir tvö píanó.

Lucas og Arthur Jussen hafa komið einu sinni áður til Íslands, þá héldu þeir tónleika í Heimspíanistaröð Hörpu haustið 2011.