EN

Stefán Ragnar Höskuldsson

Flautuleikari

Stefán Ragnar Höskuldsson er fyrsti flautuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar í Chicago og nafntogaður einleikari og kammermúsíkant á heimsvísu. Áður gegndi hann stöðu sólóflautuleikara í hljómsveit Metropolitan-óperunnar frá 2008–2016. Hefur hann hlotið lof í New York Times fyrir leiksnerpu og tilfinningaríka tjáningu. 

Stefán Ragnar hefur leikið víða um Bandaríkin, Evrópu og Japan með hljómsveitarstjórum á borð við James Levine, Valery Gergiev, Daniel Barenboim, og Ricardo Muti og kemur reglulega fram í Carnegie Hall með Hljómsveit Metropolitan-óperunnar og kammersveit hennar. Þá hefur hann unnið með píanóleikurunum Evgeni Kissin og Alfred Brendel, fiðluleikaranum Gil Shaham og sópransöngkonunni Önnu Netrebko svo dæmi séu tekin. 

Á árunum með Metropolitan-óperuhljómsveitinni lék Stefán Ragnar sem gestur fyrstu flautu með Los Angeles Fílharmóníunni, Mostly Mozart Festival-hljómsveitinni og Chicago-sinfóníunni. Sem einleikari hefur hann m.a. leikið á Pacific-tónlistarhátíðinni í Sapporo, Sir James Galway-alþjóðlegu flautuhátíðinni í Lucerne og í beinni útsendingu á BBC Radio Tune í London. Árið 2011 flutti Stefán Ragnar konsert Mozarts fyrir flautu og hörpu með félögum úr Metropolitan-hljómsveitinni og 2013 lék hann konsert Nielsens með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ashkenazys. Þá hefur hann nýlega flutt flautukonserta Lowells Liebermann og D-dúr konsert Mozarts.

Stefán Ragnar Höskuldsson kennir við einkaskóla í New York og hefur verið í kennarateymi Pacific-tónlistarhátíðarinnar frá 2010. Þá hefur hann haldið meistaranámskeið (masterclass) í virtum tónlistarháskólum svo sem Juilliard-tónlistarháskólanum í New York og Royal Academy of Music í London.

Stefán Ragnar nam flautuleik hjá Bernharði Wilkinson í Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði síðan framhaldsnám í Royal Northern College of Music í Manchester.

Hægt er að hlýða á leik Stefáns á rás Metropolitan óperunnar. Fyrsti sólódiskur hans kom út hjá Delos-útgáfunni árið 2015 og má hlusta á hér fyrir neðan.