EN

Ernest Chausson: Poéme

Ruglingsleg og undarleg tónsmíð, einstaklega erfitt verk, sem ekki mun höfða til margra“. Svona komust útgefendur að orði um Poème eftir franska tónskáldið Ernest Chausson (1855-1899), þegar leitast var eftir að fá verkið gefið út á nótum, ári eftir frumflutning þess 1896. Þrátt fyrir efasemdir útgefenda er Poème eitt þekktasta verk Chausson, það var samið fyrir belgíska fiðluleikarann Eugene Ysaÿe, sem með stórkostlegum fiðluleik sínum vakti sköpunargáfuna hjá mörgum tónskáldum.

Flestir fiðluleikarar takast fyrr eða síðar á við þetta ljóðræna, draumkennda verk, sem er afar krefjandi fyrir flytjandann. Poème er skrifað fyrir fiðlu og hljómsveit, en sú síðarnefnda heldur sig oft til hlés meðan tjáningarríkur hljómur fiðlunnar fær að njóta sín til fulls.

Titillinn Poème - Ljóð - lætur lítið yfir sér, en upphaflega átti verkið að heita Söngur sigursællar ástar, sem er titill smásögu eftir Rússann Ivan Turgenev. Sagan gerist í Ferrara á Ítalíu á sextándu öld. Tveir vinir eru ástfangnir af sömu konunni, hún giftist öðrum þeirra, hinn reynir að sefa sársaukann með því að leggjast í ferðalög til framandi landa í austri. Hann snýr aftur margs vísari og í heimsókn til hjónanna dregur hann fram þriggja strengja hljóðfæri, klætt snákaskinni. Hann hefur að leika á hljóðfærið með boga, sem í er greyptur gimsteinn. Áheyrendurnir tveir eru sem bergnumdir, í eyrum þeirra hringast tónlistin og hlykkjast eins og snákur, meðan þau horfa á ljósbrotin sem stafar frá gimsteininum á boganum. Þegar tónlistinni lýkur eru hjónin í eins konar leiðslu, en hljóðfæraleikarinn kveðst hafa lært tónlistina á eyjunni Ceylon, þar sé þetta söngur um sigursæla ást.

Ekki er vitað hvers vegna Chausson breytti titlinum, en getgátur hafa lengi verið uppi um að samband persónanna í sögunni hafi átt sér hliðstæðu í vinahópi tónskáldsins og tilfinningaólgan orðið honum innblástur að verkinu.