EN

Fanny Mendelsson: Forleikur í C

Fanny Mendelssohn (síðar Hensel) (1805–1847) fæddist í Hamborg en ólst upp í Berlín ásamt yngri systkinum sínum Felix, Rebeccu og Paul. Foreldrar þeirra, Abraham Mendelssohn-Bartholdy og kona hans Lea sem voru vel stæð og miklir listunnendur, hlúðu vel að menntun barnanna. Óvenjumiklir tónlistarhæfileikar tveggja elstu barnanna komu snemma í ljós og fengu þau á unga aldri tilsögn bestu fáanlegra tónlistarkennara. Tíðarandinn gerði þó upp á milli systkinanna og meðan Felix fékk tækifæri til að ferðast og reyna fyrir sér sem píanisti og hljómsveitarstjóri, var Fanny strax á unglingsárum minnt á væntanlegar skyldur sínar sem eiginkona og móðir.

Um 1820 stofnaði Abraham Mendelssohn til reglulegra tónleika í húsi sínu sem hann nefndi „Sonntagsmusiken“ eða „Sunnudagstónlist“. Tónleikarnir voru haldnir alla sunnudagsmorgna kl. 11:00 og stóðu í þrjár klukkustundir og sótti húsbóndinn flytjendur í raðir hirðhljómsveitarinnar. Þetta gaf systkinunum Felix og Fanny tækifæri til að flytja þekkt verk en einnig eigin tónsmíðar frammi fyrir völdum áheyrendahópi. Hlé varð á tónleikahaldinu þegar Felix Mendelssohn lagði upp í sína fyrstu ferð til Englands árið 1829 en tveimur árum síðar tók Fanny, sem þá var orðin frú Hensel, þráðinn upp að nýju. Talar tónlistargagnrýnandinn Ludwig Rellstab um tónleika hennar sem óvenjulega tónlistarhátíð þar sem gæfi að heyra vandaðan flutningi bestu tónlistarmanna Berlínar og utanaðkomandi gesta. Á þessum tónleikum heyrðust mörg verka Fannyar, þar á meðal píanóverk, sönglög, dúettar, tríó og kórlög en einnig stærri verk hennar — Hero og Leander fyrir sópran, píanó og hljómsveit, kantöturnar Hiob og Lobgesang og forleikurinn í C-dúr.

Á árunum 1839–40 ferðaðist Hensel-fjölskyldan um Ítalíu þar sem hún kynntist mörgum tónlistarmönnum. Einn þeirra var hinn ungi Charles Gounod sem lýsir Fanny svo í endurminningum sínum: „Frú Hensel var hámenntaður tónlistarmaður [...]. Þrátt fyrir að vera smávaxin og grönn var hún stórgáfuð kona og full af orku sem sem skein út úr djúpum, leiftrandi augum hennar. Þá var hún gífurlega hæfur píanisti...“.

Eftir heimkomuna frá Ítalíu samdi Fanny Hensel sitt merkasta píanóverk, ævisögulega hringinn Das Jahr (1841) sem lýsir öllum mánuðum ársins í tónum en samtals urðu tónverk hennar hátt í 500 talsins.