EN

Gabriel Fauré: Dolly, svíta

Berceuse (Allegretto moderato)
Mi-a-ou (Allegro vivo)
Le jardin de Dolly (Andantino)
Kitty - Valse (Tempo di Valse) 
Tendresse (Andante)
Le pas espagnol (Allegro) 

Gabriel Urbain Fauré (1845–1924) fæddist í suður-franska bænum Pamiers sem liggur nær rótum Pýreneaskagans. Tónlistarhæfileikar hans komu snemma í ljós og var hann sendur til tónlistarnáms í París níu ára gamall þar sem hann stundaði nám í orgelleik og kórstjórn við kristilegan tónlistarskóla næstu ellefu árin. Meðal kennara hans þar var Camille Saint-Saëns og með þeim tókst ævilöng vinátta. Eftir lokapróf frá skólanum vann Fauré fyrir sér sem organisti og átti á næstu árum eftir að þjóna sem slíkur í mörgum af helstu kirkjum Parísarborgar. Rúmlega fimmtugur fékk hann prófessorsstöðu við Konservatoríið í París og 1905 var hann skipaður skólastjóri stofnunarinnar og gegndi hann stöðunni næstu fimmtán árin. Meðal nemenda Faurés við skólann voru Maurice Ravel, George Enescu og Nadia Boulanger. Tónskáldið Gabriel Fauré skildi eftir sig á annað hundrað tónsmíðar, þar á meðal tíu hljómsveitarverk og tvær óperur.

Dolly svítan er upphaflega samin fyrir fjórhent píanó og samanstendur af sex köflum sem hver um sig ber eigin titil. Verkið skrifaði Fauré fyrir Hèlene Bardac (1892–1985) dóttur söngkonunnar Emmu Bardac sem var um árabil hjákona hans. Hèlene var í fjölskyldunni kölluð Dolly og sendi Fauré henni kafla og kafla á afmælisdögum og öðrum hátíðarstundum.

Fyrsti kaflinn, Vögguvísa, er í raun eldri tónsmíð með smávægilegum breytingum fyrir fyrsta afmælisdag Dollyar. Tveggja ára fékk hún Mi-a-ou sem lýsir framburði hennar á gælunafni bróður síns. Garður Dollyar var gjöf til telpunnar á nýársdag 1895 en í kaflanum er tilvitnun í fyrstu fiðlusónötu tónskáldsins sem hann samdi 20 árum fyrr. Ekki er vitað um fleiri tilefni en fjórði kaflinn, Kitty-vals, vísar til hunds Bardac-fjölskyldunnar sem í raun hét Ketty. Í næsta kafla, Ástúð, sem er lýrískur líkt og þriðji kaflinn, kveður við nýjan og nútímalegri tón. Síðasti kaflinn er svo Spánskur dans í anda góðvinar Faurés, Emmanuels Chabrier.