EN

Ígor Stravinskíj: Sinfónía í þremur þáttum

Þótt Ígor Stravinskíj (1882–1971) hafi ekki stundað sinfóníusmíðar jafn grimmt og margir landa hans á 20. öld samdi hann nokkur verk sem bera yfirskriftina sinfónía. Yfirleitt eiga þau fátt sameiginlegt með hefðbundinni formskipan og öðru sem þótti heyra slíkri nafngift til. Allra fyrsti ópus tónskáldsins var sinfónía í Es-dúr (1905–07), samin á námsárunum í Pétursborg; það var ekki fyrr en að loknum stórsigrunum fyrir balletthóp Sergeis Diaghilev (Eldfuglinn, Petrúska, Vorblót o.s.frv.) sem hann samdi loks annað verk með því heiti: Sinfóníur fyrir blásturshljóðfæri. Sálmasinfónían frá 1930 er líklega frægasta verk hans af þessum toga, samin við Davíðssálma fyrir kór og fiðlulausa hljómsveit; það var ekki fyrr en árið 1940 sem Stravinskíj lauk við tónsmíð sem gæti talist hefðbundin sinfónía eftir hinni Beethovensku fyrirmynd: Sinfónía í C, samin til heiðurs Sinfóníuhljómsveit Chicagoborgar á hálfrar aldar afmæli hennar og greidd með gjafafé amerískra milljónamæringa. 

Tveimur árum síðar tók Stravinskíj að punkta niður drög að öðru sambærilegu verki, sem varð Sinfónía í þremur þáttum. Þótt stíllinn sé nýklassískur rétt eins og í Sinfóníu í C er yfirbragðið annað. Klassísk heiðríkjan hefur vikið fyrir ógn og þungri undiröldu samtímans; Sinfónía í þremur þáttum er stríðsverk og ber þess merki. Þegar verkið var frumflutt í New York 1946 lagði tónskáldið raunar áherslu á að tónlistin væri „absolút“, en bætti við að vissulega væri verkið undir áhrifum frá „erfiðum tímum harðra átaka, tímum vonleysis og vonarglætu, stöðugra þjáninga, spennu, og að lokum lausnar.“ 

Nokkrum árum síðar bætti Stravinskíj um betur, sagði að verkið væri innblásið af heimsfréttum og að hver þáttur verksins ætti ákveðin hugrenningatengsl við kvikmyndabúta af framvindu stríðsins í Evrópu. Þriðji þáttur væri til dæmis innblásinn af myndum af hermönnum sem ganga í takt, með tilheyrandi lúðrasveitarmúsík og groddalegum styrkleikabreytingum í túbu. Um leið játaði tónskáldið að eigin reynsla hefði að einhverju leyti ráðið för ekki síður en kvikmyndir. Hann hafði orðið vitni að því í München árið 1932 þegar brúnstakkar réðust á hóp óbreyttra borgara; sama kvöld lenti hann í útistöðum við nasista á veitingahúsi og sú reynsla leið honum ekki úr minni. 

Margt í verkinu minnir á það besta úr eldri verkum meistarans; tónlistin er á köflum kraftmikil og þrungin spennu. Fyrsti þátturinn er settur saman úr þremur ólíkum gerðum tónlistar sem Stravinskíj púslar saman eins og mósaík: dramatísk tónlist fyrir hljómsveitina alla, kammertónlist í anda Bachs, og ágengum óreglulegum rytma fyrir píanó og strengi sem minna bæði á djassmúsík og lokadansinn í Vorblóti. Miðkaflinn er ljúft intermezzo, en í lokaþættinum er aftur málað með þykkari pensli. 

Stravinskíj setti síðasta taktstrikið aftan við Sinfóníu í þremur þáttum árið 1945, réttum fjórum áratugum eftir að hann samdi sitt fyrsta nemendaverk í forminu undir leiðsögn Rimskíj-Korsakoffs. Verkið markaði endalokin á skrykkjóttum sinfóníuferli Stravinskíjs, og hún var sömuleiðis síðasta tónverkið sem Stravinskíj samdi fyrir stóra sinfóníuhljómsveit, raunar að undanskilinni hinni skondnu Afmæliskveðju til Pierres Monteux sem er ekki annað en útsetning á laginu Happy Birthday to You. Upp frá þessu samdi Stravinskíj einungis verk fyrir smærri hljóðfærahópa, flest þeirra í gjörólíkum anda enda liðu ekki nema örfá ár þar til hann tók að laga sig eftir Schönberg og tólftónaskólanum og kvaddi þar með nýklassíska stílinn fyrir fullt og fast.