EN

Joseph Haydn: Sinfónía nr. 96

Kraftaverkið

Joseph Haydn (1732–1809) samdi 104 sinfóníur á langri ævi. Þær fyrstu skrifaði hann um miðjan þrítugsaldurinn þegar hann var í þjónustu Morzins greifa, hefðarmanns í austurríska keisaradæminu og eftir það að jafnaði tvær sinfóníur á ári. Síðustu tólf sinfóníur hans „Lundúnasinfóníurnar“ eru meðal bestu verka hans.

Góð tónlist hefur frá ómuna tíð verið í hávegum höfð í London og var Haydn vinsæll þar löngu áður en hann steig fæti sínum fyrst á breska jörð. Hann samdi sinfóníuna nr. 96 í fyrstu ferð sinni til borgarinnar og þó að talan gefi til kynna að hún sé sú fjórða af Lundúnasinfóníunum er hún í raun sú fyrsta sem hann samdi og þeirra fyrst til að hljóma opinberlega. Haydn lauk við verkið snemma á dánarári Mozarts 1791 og var það frumflutt ásamt 95. sinfóníunni í 500 manna sal í Hanover Square Rooms þá um vorið. Sagan segir að á tónleikunum hafi stór kertaljósakróna fallið niður í áheyrendasalinn, en þar sem ákafir tónleikagestir höfðu flykkst upp á sviðið í stað þess að sitja í sætum sínum, hefðu engin slys orðið. Síðari tíma rannsóknir hafa aftur á móti leitt í ljós að líklega átti þetta tilvik sér stað við flutning sinfóníunnar nr. 102.

Kraftaverkssinfónían er sú glaðlegasta af Lundúnarsinfóníunum tólf. Eftir hægan inngang þar sem stefið birtist bæði í dúr og moll hljómar Allegro-kaflinn þar sem Haydn leikur sér meðal annars með óvænt tóntegundaskipti og skoplegar, dramatískar þagnir. Í Andante-kaflanum ríkir sveitastemning sem í miðjunni er rofin af dramatískri fúgu í moll. Undir lok kaflans fá svo tvær sólófiðlur og tréblásararnir að spreyta sig á langri kadensu. Tréblásararnir eru reyndar áberandi út allt verkið og í tríóhluta Menúettsins sem er dæmigerður fyrir Haydn, spilar óbóið stefið í dillandi sveitadansi (Ländler). Lokakaflinn er svo rasandi hratt og glæsilegt rondó. Í bréfi sem Haydn skrifaði vegna væntanlegs flutnings sinfóníunnar í Vínarborg lagði hann áherslu á mikilvægi fínlegrar spilamennsku og mikinn hraða í kaflanum.