EN

Kalevi Aho: Minea

Kalevi Aho (f. 1949) er eitt fremsta tónskáld Finna af sinni kynslóð. Hann er afar afkastamikill og ef til vill þekktastur fyrir verk sín í stóru formi; hann hefur meðal annars samið 16 sinfóníur, á þriðja tug konserta og fimm óperur. Honum hefur verið lýst sem arftaka Mahlers og Sjostakovítsj á sinfóníusviðinu en höfundarverk hans rúmar þó umfram allt mikla fjölbreytni.

Aho stundaði tónsmíðanám hjá Einojuhani Rautavaara við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki og lauk prófi þaðan árið 1971. Eftir það lá leið hans til Vestur-Berlínar, þar sem hann nam
um eins árs skeið hjá Boris Blacher, en hann sneri svo aftur til Finnlands þar sem hann býr og starfar. Sinfóníuhljómsveitin í Lahti útnefndi Aho staðartónskáld sitt árið 1992 og hann hefur síðan skrifað flest sinfónísk verk sín fyrir þá hljómsveit. Osmo Vänskä var lengi aðalstjórnandi hennar (nú heiðursstjórnandi) og hefur hljóðritað mörg verka Ahos með hljómsveitinni, meðal annars allar sinfóníurnar. Þessi samvinna tónskálds og stjórnanda hefur haldist eftir að Vänskä fluttist yfir Atlantshafið og hóf að stjórna Minnesota-hljómsveitinni, því tónverkið Minea var samið að beiðni þeirrar hljómsveitar og vísar heitið til þess. 

Undirtitillinn er Concertante-tónlist fyrir hljómsveit og lýsir það verkinu vel, því að hér er á ferð tónverk þar sem ýmis hljómsveitarhljóðfæri skiptast á um að vera í aðalhlutverki og hljóðfæraleikararnir fá þar með tækifæri til að láta ljós sitt skína. Það er samið fyrir stóra hljómsveit með fjölda blásara og umfangsmiklu slagverki. Í upphafi eru blásararnir mest áberandi: tréblásturshljóðfærin fara með laglínur sem stundum taka á sig austrænan blæ á meðan hluti málmblásaranna framkallar eins konar hvin með því að blása hljóðlaust í hljóðfærin. Smám saman byggist verkið upp, fleiri hljóðfæri bætast í vefnaðinn og slagverksdeildin kyndir duglega undir, allt fram að kraftmiklum endalokum.