EN

María Huld Markan Sigfúsdóttir: Aequora

María Huld Markan Sigfúsdóttir (f. 1980) fiðluleikari og tónskáld hefur farið um víðan völl tónlistarinnar. María Huld útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2000 og frá Listaháskóla Íslands með BA-gráðu í tónsmíðum árið 2007. Auk þess að sinna tónsmíðum hefur María Huld verið meðlimur í hljómsveitinni amiinu til margra ára og með henni ferðast heimshorna á milli og flutt tónlist í ýmsum myndum. María hefur á undanförnum árum unnið með hinum ýmsu listamönnum og hljómsveitum, t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Nordic Affect, London Sinfonietta, Francesco Scavetta, Spiritualized, Yann Tiersen, Julianna Barwick, Guy Maddin, Ben Frost, Aono Jikken Ensemble, Sigur Rós, Ragnari Kjartanssyni og Sólstöfum.

Árið 2012 hlaut María viðurkenningu frá IRC (International Rostrum of Composers) fyrir verk sitt, Sleeping Pendulum. Upptökur af verkum hennar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda, og má þar sérstaklega nefna plötuna Clockworking sem kom út á árinu 2015 á vegum Sono Luminus-útgáfunnar og hefur að geyma tvö tónverk Maríu Huldar í flutningi tónlistarhópsins Nordic Affect. Einnig hefur María samið tónlist við kvikmyndir og dansverk og hafa tónsmíðar hennar verið fluttar á Íslandi, Bandaríkjunum og Evrópu. Hljómsveitarverkin 1001 – for bowed metal og Aequora voru samin sérstaklega fyrir og frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

María Huld segir eftirfarandi um verk sitt: „Verkið Aequora á uppruna sinn í öðru verki sem samið var fyrir píanó og elektróník og frumflutt á Listahátíð í Reykjavík 2015 af Árna Heiðari Karlssyni. Það verk var í upphafi notað sem eins konar beinagrind sem bætt var utan á og klippt og límt, breytt og bætt, þar til nýtt og sjálfstætt verk var orðið til, mjög ólíkt upphaflegu beinagrindinni. Nafngiftin Aequora er fengin úr ljóðabókinni Nox eftir kanadíska ljóðskáldið Ann Carson. Aequora er latneskt orð í hvorugkyni eintölu og merkir slétt yfirborð eða sléttir fletir. Tilfinning ljóðsins, sem er í raun stílfærð útskýring þessa latneska orðs, og hljómur orðsins sjálfs, er eins konar útgangspunktur fyrir verkið.“