EN

Maurice Ravel: Dafnis og Klói

Allt gekk á afturfótunum hjá Rússneska ballettinum, Ballets Russes, í París á útmánuðum 1912. Heilum fimm árum áður hafði ballettstjórinn Sergei Diaghilev pantað balletttónlist frá Maurice Ravel (1875–1937) um fögru meyna Klói, sem var rænt af stigamönnum frá sínum heittelskaða Dafnis en var bjargað að lokum. Diaghilev kallaði hina færustu menn til samstarfsins eins og hans var von og vísa. Mikhail Fokine samdi dansana, Leon Bakst hannaði sviðsmyndina, og Vaslav Nijinskíj og Tamara Karsavina fóru með aðalhlutverkin. Þó gekk smíði verksins ekki vandræðalaust fyrir sig. „Þessi vika var hreinasta geðveiki. Ég vinn til klukkan þrjú hverja nótt. Það flækir málin að Fokine talar ekki orð í frönsku, og ég kann ekkert í rússnesku nema blótsyrði. Þú getur ímyndað þér andrúmsloftið,“ kvartaði Ravel í bréfi til vinar síns. Dansahöfundarnir áttu í stöðugum erjum sín á milli, og um tíma leit út fyrir að Diaghilev myndi hætta við allt saman. Dansararnir áttu líka í vandræðum með að skilja taktbreytingarnar í lokadansinum sem er að mestu í 5/4-takti – og áttu þeir þó fyrst eftir að komast í hann krappann ári síðar, þegar þeir dönsuðu Vorblót Stravinskís við almenna skelfingu Parísarbúa.  

Að lokum var Dafnis og Klói þó frumfluttur 8. júní 1912, tíu dögum eftir að ballett Nijinskíjs við hljómsveitarverk Debussys, Síðdegi skógarpúkans, var sýndur í fyrsta sinn. Til að byrja með féll ballett Ravels algjörlega í skuggann af klámfengnum tilburðum skógarpúkans. Í ofanálag var hljómsveitin illa æfð og margt gekk ekki sem skyldi. Ekki leið þó á löngu þar til áheyrendur tóku ástfóstri við hina litríku tónlist Ravels, enda er Dafnis og Klói eitt hans allra besta verk, og er þá mikið sagt. Balletttónlistin, sem Ravel kallaði „kóreógrafíska sinfóníu í þremur hlutum“  tekur í heild um klukkutíma í flutningi og er viðamesta hljómsveitarverk hans. Til að auðvelda flutning verksins sauð Ravel saman tvær styttri hljómsveitarsvítur sem heyrast mun oftar í tónleikasölum heimsins en ballettinn í heild.

Atburðarásin í Dafnis og Klói er fengin úr sögu forngríska höfundarins Longus (líklega 2. öld f.Kr.), en löguð að þörfum ballettsins af Fokine og Ravel sjálfum. Dafnis og Klói voru bæði yfirgefin sem ungabörn á eynni Lesbos og alin upp af góðviljuðum fjárhirðum. Þau fella hugi saman, en sjóræningjar taka land á eynni og nema Klói á brott. Það er sjálfur Pan, guð fjárhirðanna, sem kemur henni til bjargar, og ballettinum lýkur með miklum fögnuði þegar Dafnis og Klói heita hvort öðru ævarandi ást.  

Ballettinn hefst á dulúðlegri skógarstemningu, og eftirtektarvert er hvernig Ravel notar kór án orða til að skapa munúðarfulla stemningu bæði hér og síðar. Dafnis og Klói færa skógardísunum fórnir og eru umkringd dönsurum; fjárhirðirinn Dorcon leggur ást á Klói og reynir að kyssa hana. Þeir Dafnis keppa um hylli hennar með dansi, og allir hrífast meira af þokkafullum dansi Dafnisar. Hann fær koss sinnar heittelskuðu að launum, en skyndilega heyrast bardagahljóð og ungar stúlkur eru eltar uppi af harðsvíruðum sjóræningjum. Þeir ræna Klói og Dafnis fellur í ómegin. Skyndilega vakna skógardísirnar til lífsins, stíga niður af pöllum sínum og dansa hægan og sérkennilegan dans. Þær leggja á ráðin með Dafnis um að bjarga fórnarlömbunum úr klóm ræningjanna.  

Skyndilega er skipt um svið, og við sjáum sjóræningjana hlaupa um með góss sitt og kyndla. Dramatískur stríðsdans þeirra í öðrum þætti leiðir hugann oft og tíðum að Vorblóti Stravinskís, sem var einmitt í smíðum um það leyti sem ballett Ravels var fyrst fluttur. Ravel laðar hér fram villimannlegt eðli sjóræningjanna með þungbúnum þrástefjum og áhrifamikilli notkun slagverks og málmblásturshljóðfæra. Klói reynir hvað eftir annað að flýja úr gíslingunni, en að lokum er það Pan sem skekur jörðina og vekur þannig skelfingu ræningjanna sem flýja af hólmi. Í þriðja þætti kemur sólin upp í mögnuðum hljómsveitarkafla þar sem náttúran vaknar til lífsins við fuglasöng. Fjárhirðarnir vekja Dafnis, sem enn er áhyggjufullur um afdrif sinnar heittelskuðu. Að lokum birtist Klói og þau fallast í faðma. Aldni fjárhirðirinn Lammon segir frá því að Pan hafi bjargað Klói í minningu skógardísarinnar Syrinx, sem hann felldi eitt sinn hug til. Þegar Pan snerti Syrinx breytti hún sér í reyr, sem Pan safnaði saman og gerði úr flautu. Dafnis og Klói dansa ballett við söguna af Pan og Syrinx við ástleitna og seiðandi flaututóna. Að lokum stíga elskendurnir fram fyrir altari skógargyðjanna og heita hvort öðru ævarandi ást. Ballettinum lýkur með æsilegum lokadansi í fimmskiptum takti, þar sem frygðarstunur elskendanna óma gegnum hnausþykkan hljómsveitarvefinn.