EN

Max Bruch: Fiðlukonsert nr. 1

Þýska tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Max Bruch (1838–1920) fæddist í Köln. Óvenjumiklir tónlistarhæfileikar hans komu snemma í ljós og naut hann hvatningar og fyrstu leiðsagnar í tónlist frá móður sinni sem var sópransöngkona og söngkennari. Síðar stundaði hann nám hjá tónskáldinu og píanóleikaranum Ferdinand Hiller sem Robert Schumann tileinkaði píanókonsert sinn. Bruch starfaði á langri ævi víðsvegar um Þýskaland sem kennari, tónskáld og hljómsveitarstjóri. Þá var hann stjórnandi Hljómsveitar tónlistarfélagsins í Liverpool á Bretlandi frá 1880–83 og tónlistarstjóri í Breslau (núna Wroclaw í Póllandi) frá 1883–1890. Síðustu tuttugu ár opinberrar starfsævi sinnar (1890–1910) kenndi hann tónsmíðar við Tónlistarháskólann í Berlín.

Eftir Max Bruch liggja u.þ.b. 200 tónverk, meðal annars þrjár óperur, þrjár sinfóníur, þrír fiðlukonsertar auk sönglaga og stærri verka fyrir kór og hljómsveit. Í dag er hann einkum þekktur fyrir fyrsta fiðlukonsertinn, Skosku fantasíuna fyrir fiðlu og hljómsveit og Kol nidrei fyrir selló og hljómsveit.

Tónsmíðar Bruchs nutu mikilla vinsælda á ofanverðri 19. öld og er fiðlukonsert hans nr. 1 ásamt konsertum Beethovens, Mendelssohns og Brahms einn af helstu konsertum þýskra höfunda þeirrar aldar. Verkið samdi Bruch fyrir ungverska fiðlusnillinginn Joseph Joachim líkt og Brahms tíu árum síðar en báðir nutu þeir leiðsagnar Joachims við endanlega gerð verksins, einkum einleiksraddarinnar. Frumflutti Joachim konsertinn í Bremen í ársbyrjun 1868 og sagði hann mest hrífandi fiðlukonsert sem hann þekkti til.

Konsertinn er vissulega hrífandi. Hann hefst á stuttum inngangi þar sem einleiksfiðlan fer með þenkjandi framsögu áður en fyrsta ljóðræna stefið af mörgum birtist. Undir lok kaflans fær hljómsveitin loks orðið, áður en fiðlan tekur upp þráðinn og lýkur frásögninni sem hún hóf í byrjun. Eftirspil hljómsveitarinnar leiðir svo beint inn í hæga kaflann og er grunntóntegund hans Es-dúr þar sem fögur stef hljóma hvert á eftir öðru. Lokaþátturinn með sínu hetjulega, ungverska yfirbragði er síðan í senn glæsilegur og tilfinningaþrunginn.  

Það er vissulega umhugsunarvert hversu fá verk Max Bruch hafa náð vinsældum. Sem dæmi, hafa aðeins tvö hljómsveitarverka hans, utan þeirra þriggja sem fyrr er getið, heyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar — konsert fyrir tvö píanó og konsert fyrir klarínettu og víólu. Nokkur af kammerverkum Bruchs hafa heyrst á tónleikum hérlendis m.a. ægifagur klarínettukvintettinn og er óskandi að áheyrendur fái í framtíðinni tækifæri til að kynnst fleiri verkum þessa merka tónskálds