EN

Páll Ísólfsson: Lýrísk svíta

„Í gamla daga var ekki endilega hugsað um það að vera frumlegur, heldur eðlilegur og kunna til verka. Konst merkir upprunalega: að kunna.“ Þannig komst Páll Ísólfsson (1893-1974) að orði í viðtalsbók Matthíasar Johannessen, Hundaþúfan og hafið. Frumleikinn var aldrei efstur í huga Páls við tónsmíðarnar. Hann var nítjándu aldar maður í húð og hár, hafði numið hjá nestor þýskrar síðrómantíkur, Max Reger, við tónlistarháskólann í Leipzig. Þar lærði Páll handbragð þeirra Brahms, Mendelssohns og Schumanns, og síðari tíma uppfinningar áttu aldrei jafn greiða leið í tónskáldskap hans.  

Vissulega má segja að önnur íslensk tónskáld hafi verið Páli fremri þegar kom að því að finna sinn eigin tón, og aðrir stóðu sig betur í að fylgja nýjustu straumum samtímatónlistar beggja vegna Atlantsála. Um það verður hins vegar ekki deilt að í tónlist sinni sló Páll á strengi hinnar íslensku þjóðarsálar. Lýrísk svíta varð til í útsetningu fyrir sinfóníuhljómsveit á árunum upp úr 1950. Þættir svítunnar byggja þó á eldri tónlist, til dæmis stuttum píanóverkum Páls sem eru mjög í anda Johannesar Brahms.