EN

Pjotr Tsjajkovskíj: Capriccio Italien

Ekki einungis frönsk tónskáld 19. aldar urðu fyrir áhrifum af suður-evrópskri alþýðutónlist, hið sama gilti um t.d. rússnesk tónskáld. Glinka og Rimskíj-Korsakov sóttu í spænska músík, landi þeirra Pjotr Tsjajkovskíj (1840-1893) í tónlist frá Ítalíu.  Eitt verka hans þar sem ítölsk áhrif eru áberandi er Capriccio Italien, eða ítölsk gletta, sem var frumflutt í Moskvu í desember 1880. 

Tsjajkovskíj hafði ferðast um Evrópu sama ár í fylgd bróður síns, þeir voru staddir í Róm á Ítalíu þegar kjötkveðjuhátíðin stóð þar sem hæst og mikið líf og fjör var á götum úti, með tilheyrandi tónlist á strætum og torgum. Tónlistin sem umvafði Tsjajkovskíj meðan á dvöl hans í Róm stóð myndar grunninn að Ítölsku glettunni, hann skrifar sjálfur í bréfi að stefin rekist hann ýmist á í rituðum söngvasöfnum eða þau leiti hann hreinilega uppi á gönguferðum um borgina. 

Lúðraþyturinn í fyrsta þætti er endurómur minninga þeirra bræðra frá morgunstundum á Hotel Constanzi í Róm, en næsta hús við hótelið var hermannaskáli þar sem farið var snemma á fætur við lúðrakall sem fór ekki framhjá hótelgestunum. Einn kafli glettunnar líkist helst fjörlegu danslagi leiknu af götumúsíköntum. Þá kemur mars á alvarlegri nótum, kannski má aftur greina áhrif frá nálægðinni við hersveitina. Lokakaflinn er lífleg tarantella frá Napolí, Ciccuzza, lag sem hljómar bæði leikið og sungið enn þann dag í dag.

„Tónlist í frumlitunum, lagræn og laus við “ sagði tónskáldið sjálft um þessa glettu sína, sem hann var nokkuð ánægður með allt frá fyrstu drögum. Hann var sannfærður um að verkið myndi falla áheyrendum vel í geð og reyndist sannspár í þeim efnum, en ítalska glettan er eitt af vinsælustu hljómsveitarverkum Tsjajkovskíjs og hljómar reglulega í tónlistarsölum heimsins.