EN

Þorkell Sigurbjörnsson: Mistur

Þorkell Sigurbjörnsson (1938–2013) nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðan til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem tónsmíðar urðu hans aðalnámsgrein. Stundaði Þorkell nám við tónlistardeildir Hameline-háskólans í Minnesota og Illinois-háskóla í Champaign-Urbana. Auk þess sótti hann námskeið í tónsmíðum í Darmstadt í Þýskalandi og Nice í Frakklandi.

Þorkell var eitt af höfuðtónskáldum okkar á 20. öldinni. Tónverkaskrá hans er fjölbreytt og tilkomumikil en hún inniheldur hljómsveitarverk, einleikskonserta, kammertónlist, óperur og sönglög auk fjölda annarra tónverka. Þorkell var einnig frábær píanóleikari, mikilsvirtur kennari, tónlistargagnrýnandi og dagskrárgerðarmaður. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Hameline-háskólann árið 1999 og var meðlimur Konunglegu sænsku akademíunnar.

Um hljómsveitarverk sitt „Mistur“ skrifaði Þorkell Sigurbjörnsson í tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músikdögum 2001:

Mistur var samið síðsumars 1972, þegar við Gunnar Egilson og Ingvar Jónasson vorum á tónleikaferð og spiluðum m.a. í Bonn. Þá var iðandi mistur yfir Rínardalnum, ti-do,mí,fa, svo langt sem eyrað heyrði [...].

 

Og í efnisskrána 2. nóvember 1972 þegar verkið var frumflutt ritaði Þorkell þetta meðal annars:

Þriggja tóna ögn, tónflutt um flest raddsvið hljómsveitarinnar, oftast stutt, en stundum teygð, lengd og þanin (eins og daggardropi í stækkunargleri), tekur á sig ýmis litbrigði hljóðfæranna — þannig varð þetta tónamistur
til á s.l. sumri.

Það er skemmtileg tilviljun fyrir undirritaðan, að í haust eru nákvæmlega 10 ár síðan fyrsta tónsmíð mín heyrðist á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og jafnframt er Mistur 10. verkið mitt, sem frumflutt er síðan
2. nóvember í fyrra.

Hljómsveitinni og áheyrendum þakka ég hér með kærlega fyrir samferðina í sól og regni — eða bara mistri!

 

Í Morgunblaðinu skrifaði Guðmundur Emilsson m.a. þetta eftir frumflutning verksins:

Í raun er tónverkið Mistur eftir Þorkel Sigurbjörnsson [...] röð mynda þar sem lítið þriggja tóna stef er ýmist meðhöndlað sem kliður eða laglína. Ólíkir stuttir kaflar eru hnýttir saman með gömlum og góðum brögðum, svo sem raddfleygum og löngum liggjandi tónum þannig að verkið verður óhjákvæmilega órofa heild líkt og straumþungt fljót, eða þá bara lækjarspræna. Það er varðað frá upphafi áberandi kennileitum, hljómrænum sem hljóðfallslegum, er af og til vísa áhorfendum veginn út úr þeim óraheimi sem hugmyndaflug tónskáldsins hefur leitt þá í.