EN

W.A. Mozart: Sinfónía nr. 39

Menn hafa löngum velt því fyrir sér hvaða félagslegu eða sálfræðilegu kringumstæður leiddu til þess að Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) samdi þrjár síðustu – og merkustu – sinfóníur sínar á innan við átta vikum sumarið 1788. Lengi var það trú manna að á þessum tíma hafi hinn misskildi snillingur verið hvað verst leikinn af meðbræðrum sínum og því séð sig knúinn til að semja verk sem gætu gefið eitthvað í aðra hönd. Víst voru þetta erfiðir tímar í lífi hans, en það stafaði einkum af því að veldi Habsborgara átti í gríðarmiklum erfiðleikum á þessum tíma og afleiðingin var kreppa sem snerti alla íbúa austurríska keisaradæmisins. Jósef II Austurríkiskeisari háði stríð við Tyrki í nafni Katrínar, keisaraynju Rússa, en ekki fór betur en svo að herinn sneri heim árið 1790 eftir þriggja ára dýrkeypta niðurlægingu. 

Kreppan í Vínarborg hafði afleit áhrif á listalíf borgarinnar: aðalsfólk dvaldi heldur í Ungverjalandi, einkahljómsveitir lögðust af og tónleikum fækkaði. Mozart gegndi ekki fastri stöðu og varð því sérlega illa fyrir barðinu á kreppunni, til dæmis var engin ópera pöntuð frá honum á stríðsárunum og áform um tónleikahald í Vínarborg urðu öll að engu. Í júlí 1788 – mánuði eftir að hann lauk við Es-dúr sinfóníuna– ritaði hann frímúrarabróður sínum Michael Puchberg örvæntingarfull bréf og bað hann um að lána sér fé þangað til eftirspurn eftir tónlist sinni taki að glæðast á nýjan leik. 

Hægir inngangar eru furðu sjaldgæfir í sinfóníum Mozarts. Þá er aðeins að finna í þremur: Linz-, Prag-, og Es-dúr sinfóníunum. Af þeim er sá síðastnefndi hvað dramatískastur, og hefst með þykkum og voldugum hljómum. Smám saman verða þeir dekkri, hnígandi fiðluskalarnir ekki alveg jafn fyrirsjáanlegir og áður, og þegar minnst varir kemur Mozart hlustandanum í opna skjöldu með skerandi ómstríðu; hljómaval meistarans gerist ekki öllu djarfara en í lokatöktum inngangsins. Í hugljúfum upphafstöktum Allegro-þáttarins er sem öllum skýjum hafi verið svipt í burtu, en af og til vísar Mozart til stormasamra upphafstaktanna, til dæmis með hnígandi fiðluskölum og krómatík í neðri strengjum. 

Andante-kaflinn gefur heldur ekki allt uppi við fyrstu heyrn. Stefið er einfalt, þokkafult, sakleysislegt, en í síðustu töktunum verður það öllu þungbúnara. Dúr verður að moll og við tekur stormasamur og átakamikill millikafli þar sem Mozart nýtir sér hæfileika sína til fulls og skapar stórfenglegan þátt úr einföldum efniviði.  

Menúettinn er þróttmikill en um leið sveitalegur, ekki síst í tríókaflanum. Þar notar Mozart ósvikið ländler-stef í klarínettum, en þau voru algeng danshljóðfæri í austurrískum alpaþorpum á 18. öld. Í gamansömum lokaþættinum heyrist glöggt hvílík áhrif Joseph Haydn hafði á yngri kollega sinn. Kaflinn er í einstefja sónötuformi, sem var sérgrein eldri meistarans: fjörugt upphafsstefið er hið eina sem heyrist í öllum kaflanum. Þegar kemur að úrvinnslunni bregður Mozart á leik og leyfir stefinu að gægjast fram í nánast hverri einustu tóntegund sem fyrirfinnst. Að loknum nokkrum rússíbanaferðum um hin ýmsu hljómasvæði lendum við aftur á upphafsreit. Mozart leiðir okkur að lokatöktunum með bjartsýni og lífsgleði sem virðist ganga þvert á það sem við vitum um bág kjör hans og aðstæður um það leyti sem þessi tónlist varð til.