EN

Eliza Reid er verndari Ungsveitarinnar

Eliza Reid forsetafrú tók við stöðu verndara Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tíu ára afmæli sveitarinnar árið 2019. Í tilefni af afmælinu flutti Ungsveitin Níundu sinfóníu Beethovens ásamt úrvalsliði ungra einsöngvara og æskukóra fyrir fullu húsi í Eldborg sunnudaginn 22. september 2019.

Eliza Reid forsetafrú tók við stöðu verndara Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tíu ára afmæli sveitarinnar árið 2019. Í tilefni af afmælinu flutti Ungsveitin Níundu sinfóníu Beethovens ásamt úrvalsliði ungra einsöngvara og æskukóra fyrir fullu húsi í Eldborg sunnudaginn 22. september 2019.

Það er mér sérstök ánægja að vera verndari Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á 10 ára afmæli hennar. Mikilvægt er að reyndir tónlistarmenn miðli af þekkingu sinni og reynslu og því er Ungsveitin marktækur þáttur í starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hundruð ungmenna hafa á liðnum árum hlotið þjálfun innan Ungsveitarinnar og einhver þeirra eru nú komin til liðs við Sinfóníuhljómsveitina sem fullgildir hljóðfæraleikarar,

segir Eliza Reid forsetafrú.

Stuðningur Elizu er dýrmæt viðurkenning og hvatning til okkar frábæra unga listafólks sem með elju og dugnaði tekur þátt í starfsemi Ungsveitarinnar. Ungsveitin er ekki eingöngu mikilvæg fyrir þá sem taka þátt hverju sinni og fyrir framtíð tónlistarlífs á Íslandi. Ungsveitin er líka fyrirmynd og hvatning til alls ungs fólks, “

segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Ungsveitin hefur vakið verðskuldaða athygli en hún hlaut viðurkenninguna Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Markmið Sinfóníuhljómsveitar Íslands með hljómsveitarskóla Ungsveitarinnar er að gefa tónlistarnemendum innsýn og vettvang til að kynnast hinum sinfóníska heimi af eigin raun og njóta þjálfunar og leiðsagnar framúrskarandi hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra eins og um atvinnumennsku væri að ræða. Tónleikar Ungsveitarinnar hafa vakið eftirtekt fyrir samstilltan flutning og magnaða túlkun.