EN

Christian Tetzlaff

Fiðluleikari

Christian Tetzlaff hefur um árabil verið í hópi eftirsóttustu fiðluleikara í heimi sígildrar tónlistar. Fyrir rúmu ári lofaði gagnrýnandi The Guardian túlkun hans á fiðlukonserti Beethovens með Sinfóníuhljómsveit Lundúna sem stórkostlegasta flutning á verkinu sem hann hefði upplifað. Tetzlaff leikur árlega á u.þ.b. 100 tónleikum en á víðfeðmum verkalista hans eru mörg gleymd meistaraverk svo sem fiðlukonsert Josephs Joachim og ný verk, t.d. fiðlukonsert Jörg Vidmanns sem hann frumflutti. Christian Tetzlaff hefur verið staðarlistamaður Berlínarfílharmóníunnar og komið reglulega fram í tónleikaröðum Hljómsveitar Metropolitanóperunnar í New York undir stjórn James Levine. Þá er hann tíður gestur hljómsveita á borð við New York-fílharmóníuhljómsveitina, Vínarfílharmóníuna, Concertgebouw-hljómsveitina og helstu hljómsveitir Lundúnaborgar undir stjórn fremstu stjórnenda, þar á meðal Andris Nelsons, Robin Ticcati og Vladimir Jurowski.

Árið 1994 stofnaði Christian Tetzlaff strengjakvartett sem ber nafn hans en kammertónlist hefur löngum verið honum jafn mikilvæg og einleikarastarfið. Tetzlaff-kvartettinn hefur hlotið viðurkenningar á borð við Diapason d'or og tríó hans með systurinni Tönju og píanistanum Lars Vogt hefur verið tilnefnt til Grammy-verðlaunanna. Þá hefur Christian Tetzlaff hlotið fjölda verðlauna fyrir einleik á hljómplötum. Hann leikur á fiðlu sem smíðuð er af þýska fiðlusmiðnum Peter Greiner og hann kennir reglulega við Kronberg-akademíuna.

Á nýbyrjuðu starfsári kemur Christian Tetzlaff fram í fjórum heimsálfum - leikur m.a. með MET-hljómsveitinni og James Levine í New York, Los Angeles-fílharmóníunni, Chicago-sinfóníunni, Lundúnafílharmóníunni, Sydney-sinfóníuhljómsveitinni og sem staðarlistamaður Niðurlandafílharmóníunnar í Amsterdam. Þá ferðast hann með Skosku kammersveitinni um Austur-Asíu og með kammerhópum sínum um Bandaríkin og Evrópu.