EN

Hallfríður Ólafsdóttir

Flautuleikari

Hallfríður Ólafsdóttir er leiðandi flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún nam tónlist á Íslandi, í London og í París. Hún er stofnandi kammerhópsins Camerarctica, sinnir uppfræðslu ungs tónlistarfólks af ákafa og leikur reglulega einleikskonserta með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hallfríður er höfundur og listrænn stjórnandi fræðsluverkefnisins um Maxímús Músíkús og hafa metsölubækurnar um músíkölsku músina verið gefnar út og fluttar á tónleikum sinfóníuhljómsveita víða um heim. 

Hallfríður hefur á síðustu misserum sinnt hljómsveitarstjórn í auknum mæli og hefur stjórnað tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna, Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands auk þess að hafa stjórnað ýmsum minni hópum á borð við Íslenska flautukórinn og Hnúkaþey, sérstaklega í flutningi samtímatónlistar. Árið 2002 var Hallfríði veitt heiðursnafnbótin Associate of the Royal Academy of Music í London, vorið 2003 hlaut hún titilinn Bæjarlistamaður Garðabæjar og fyrir frumkvöðlastarf sitt í þágu tónlistarfræðslu hlaut Hallfríður Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2014.