EN

Harpa Ósk Björnsdóttir

Einsöngvari

Harpa Ósk Björnsdóttir sópransöngkona stundar nám við óperudeild Bayerisches Theaterakademie August Everding við Prinzregenten-óperuhúsið í München þar sem hún lærir undir handleiðslu söngkonunnar Sabine Lahm. Fyrr á árinu lauk hún bakkalárnámi í klassískum söng frá Felix Mendelssohn tónlistarháskólanum í Leipzig. Hún hóf söngnám 15 ára gömul í tónlistarstarfi Langholtskirkju og fór þaðan í Söngskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands þar sem hún lærði hjá Þóru Björnsdóttur, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristni Sigmundssyni og Þóru Einarsdóttur.

Harpa þreytti frumraun sína með Íslensku óperunni í hlutverki Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, var einn sigurvegara Ungra einleikara, keppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og LHÍ, og sigraði í háskólaflokki keppninnar Vox Domini þar sem hún hlaut titilinn „Rödd ársins 2019“. Harpa hefur hlotið ýmsa styrki síðustu misseri, þ.á m. námsstyrk Landsbankans, tónleikastyrk frá Ýli og styrki úr minningarsjóðum Vilhjálms Vilhjálmssonar, Ruthar Hermanns, Jóns Stefánssonar og dr. Ingjalds Hannibalssonar. Næstu verkefni Hörpu utan námsins eru hlutverk í óperunum Toscu í Oper Leipzig, Hans og Grétu við Oper Halle, Achill unter den Mädchen við Prinzregententheater München, Töfraflautunni í gestauppsetningu Oper Leipzig við Theater Regensburg, með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu og tónleikar í tónleikaröðinni „Ár íslenska einsöngslagsins“ í febrúar 2023. Harpa hefur einnig lokið BS-prófi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.