EN

Hjörtur Páll Eggertsson

Sellóleikari

Hjörtur Páll Eggertsson var fimm ára gamall þegar hann hóf að leika á selló. Fyrsti kennari hans var Örnólfur Kristjánsson, en hann stundaði síðar frekara nám hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran. Hjörtur hefur frá árinu 2012 tekið virkan þátt á ýmsum tónlistarhátíðum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Í mars 2017 lék hann einleik með Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík. Hjörtur er einnig virkur í flutningi kammertónlistar og hlaut meðal annars Nótuna árið 2014 ásamt strengjakvartetti sínum. Frá árinu 2011 hefur hann tekið þátt í Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands ásamt því að hafa leikið með Orkester Norden og Sinfóníuhljómsveitinni í Stavanger. Hjörtur lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2017 og stundar nú nám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn undir handleiðslu Morten Zeuthen. Hann leikur á selló sem Hans Jóhannsson smíðaði fyrir hann árið 2016.