EN

Jack Liebeck

Fiðluleikari

Enski fiðluleikarinn Jack Liebeck fæddist í London árið 1980. Hann hefur komið fram með öllum helstu hljómsveitum Bretlands auk þess að leika með Fílharmóníuhljómsveitunum í Stokkhólmi og Ósló, Pólsku útvarpshljómsveitinni og ótal fleiri sveitum. Meðal stjórnenda sem hann hefur starfað með má nefna Andrew Litton, Sir Neville Marriner, Sakari Oramo, Vasily Petrenko, Jukka Pekka Saraste, Yuri Simonov og Leonard Slatkin. 

Liebeck debúteraði í Wigmore Hall árið 2002 og hefur síðan farið í tónleikaferðir um allan heim, og m.a. leikið kammertónlist með Renaud og Gautier Capuçon, Bengt Forsberg, Lynn Harrell, Angelu Hewitt og Jean-Yves Thibaudet. Geisladiskar hans hafa hlotið heiðursviðurkenningar m.a. hjá Telegraph og Strad Magazine, auk þess sem hann hlaut Classical Brit verðlaunin 2010. Hann lék einnig tónlist Darios Marianellis í kvikmyndinni Anna Karenína, sem var tilnefnd til Óskars-, Golden Globe og BAFTA-verðlauna árið 2013. Liebeck er prófessor í fiðluleik við Konunglegu tónlistarakademíuna í Lundúnum og leikur á Guadagnini-fiðlu frá árinu 1785.