EN

Leo Hussain

Hljómsveitarstjóri

Leo Hussain vakti alþjóðlega athygli þegar hann var skipaður tónlistarstjóri Landestheater í Salzburg 2009. Einnig hlaut frumraun hans í Théâtre de la Monnaie í Brussel, þar sem 

hann stjórnaði nýrri uppfærslu La Fura dels Baus á Le Grand Macabre eftir Ligeti, fádæma góðar undirtektir. Í kjölfarið var Hussain boðið að starfa með leiðandi hljómsveitum og óperuhúsum á borð við Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar, Þýsku sinfóníuhljómsveitina í Berlín, BBC sinfóníuhljómsveitina, Mozarteum hljómsveitina í Salzburg, Ríkisóperuna í Berlín, Theatre an der Wien og Ensku þjóðaróperuna ásamt áframhaldandi samstarfi við La Monnaie.

Nýverið þreytti Hussain frumraun sína við óperuna í Santa Fe í Nýju Mexíkó, þar sem hann stjórnaði La Traviata og í Bayerische Staatsoper í München með L'elisir d'amore. Einnig sótti hann Theatre an der Wien nýverið heim þar sem hann stjórnaði Béatrice et Bénédictog Ríkisóperuna í Berlín þar sem viðfangsefnin voru Aida og Tosca. Á sinfóníska sviðinu má nefna tónleika með Þýsku útvarpsfílharmóníunni, Fílharmóníusveitinni í Essen og þátttöku á Enescu-hátíðinni í Búkarest þar sem hann stjórnaði Gurrelieder eftir Schönberg. Auk þess hefur hann stjórnað við Konunglega danska óperuhúsið þar sem hann stjórnaði Falstaff eftir Verdi í uppfærslu Peters Langdal, og hefur einnig stjórnað við Konunglega óperuhúsið í Covent Garden og Glyndebourne óperuhátíðina.

Leo Hussain stundaði nám við háskólann í Cambridge og Konunglegu tónlistarakademíuna í London. Árið 2004 stýrði hann English Touring Opera og í framhaldi af því Glyndebourne on Tour ásamt Opera North sem leiddi til samstarfs við Salzburg Festival þar sem hann vann í samstarfi við Rattle, Gergiev, Muti og Nezet-Seguin. Hussain stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn árið 2014.