EN

Sigrún Hjálmtýsdóttir

Einsöngvari

Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar. Síðar stundaði hún sígilt söngnám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum og hélt síðan til Ítalíu til framhaldsnáms. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum og sýningum jafnt á sviði sem í kvikmyndum, sem ber fjölbreyttum hæfileikum hennar vitni. Frumraun sína á óperusviði þreytti hún í hlutverki Olympiu í Ævintýrum Hoffmanns í Þjóðleikhúsinu.

Meðal verkefna hennar hjá Íslensku óperunni eru hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, Papagenu og Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, Lúsíu í Lucia di Lammermoor, Violettu í La traviata, Adínu í Ástardrykknum og Rosalindu í Leðurblökunni

Sigrún hefur margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og erlendum hljómsveitum víða um heim. Hún hefur hljóðritað fjóra geisladiska við meðleik Sinfóníunnar en alls hefur hún sungið inn á rúmlega 70 hljómplötur. Sigrún söng hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, fyrstu óperusýningunni í Hörpu, og hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína. Árið 1995 var Sigrún sæmd hinni íslensku fálkaorðu og árið 1997 finnsku ljónsorðunni.