EN

Simone Lamsma

Fiðluleikari

Hollenski fiðluleikarinn Simone Lamsma hefur hlotið mikla athygli undanfarin ár fyrir glæsilegan leik sinn. Hún hóf fiðlunám 5 ára gömul og fluttist til Englands 11 ára til að læra við Yehudi Menuhin-skólann. Hún lék sinn fyrsta einleikskonsert með hljómsveit 14 ára og hefur síðan komið fram víða um heim, m.a. með Fílharmóníuhljómsveitunum í Stokkhólmi og Brussel, og ótal hljómsveitum í heimalandi sínu. Meðal þeirra stjórnenda sem hún hefur starfað með eru Vladimir Jurowski, Sir Neville Marriner, Jaap van Zweden, Jiří Bělohlávek, Yannick Nézet-Séguin, James Gaffigan og Yan Pascal Tortelier. Hún hlaut Hollensku tónlistarverðlaunin 2010 og ári síðar var henni boðið að leika á tónleikum til heiðurs Beatrix Hollandsdrottningu, á tónleikum sem var sjónvarpað beint í Hollandi. Simone Lamsma leikur á Stradivarius-fiðlu frá árinu 1718.