EN

Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar

Gestahljómsveit

Gautaborgarsinfónían (Göteborgs Symfoniker) er þjóðarhljómsveit Svíþjóðar. Hún heldur árlega í kringum 100 tónleika í Tónleikahúsi Gautaborgar við Gautatorgið. Hefur hljómsveitin sett sér að markmiði að verða orðin ein fremsta hljómsveit heimsbyggðarinnar árið 2020.

Auk tónleika í tónleikahúsinu og á ferðalögum erlendis, kemur hljómsveitin fram á  Gautatorginu og í Slottsskogen-garðinum á sumrin. Þá eru tónleikar hljómsveitarinnar sendir út á sjónvarpsrás hennar GSOplay.

Gautaborgarsinfónían var stofnuð árið 1905 og telur í dag 109 hljóðfæraleikara. Hún hefur fast aðsetur í Tónleikahúsi Gautaborgar (Göteborgs konserthus) sem er staðsett í hjarta borgarinnar.

Hljómsveitin á sér merkilega sögu og hafa margir nafntogaðir hljómsveitarstjórar stýrt flutningi hennar í gegnum árin. Fyrsti aðalstjórnandi Gautaborgarsinfóníunnar var tónskáldið, píanóleikarinn og hljómsveitarstjórinn Wilhelm Stenhammar sem var við stjórnvölinn frá 1907–1922. Hann léði hljómsveitinni skýrt norrænt yfirbragð og fékk m.a. kollega sína Carl Nielsen og Jean Sibelius til að stýra flutningi hennar.

Annar stór áhrifavaldur í sögu hljómsveitarinnar er Neeme Järvi sem var aðalstjórnandi hennar frá 1982–2004. Með honum ferðaðist hljómsveitin víða um lönd og hljóðritaði verk fyrir um það bil 100 hljómplötur. Öðlaðist hún á þessum árum viðurkenningu sem ein af fremstu hljómsveitum Evrópu. Var hún árið 1997, í tíð Järvis, útnefnd þjóðarhljómsveit Svíþjóðar

Gautaborgarsinfónían er í föstu samstarfi við hljómplötuútgáfurnar Deutsche Grammophon og BIS.  Hún hefur einnig hljóðritað fyrir Chandos-útgáfuna - m.a. sinfóníur og önnur hljómsveitarverk eftir Mieczysław Weinberg og hljómsveitartónlist Albans Berg. 

Finnski hljómsveitarstjórinn Santtu-Matias Rouvali tók við stöðu aðalstjórnanda Gautaborgarsinfóníunnar á síðastliðnu hausti en aðalgestastjórnandi og listrænn ráðgjafi er Kent Nagano. Þá er Gustavo Dudamel heiðursstjórnandi og Neeme Järvi aðalstjórnandi á eftirlaunum.