EN

Tanja Tetzlaff

Sellóleikari

Þýski sellóleikarinn Tanja Tetzlaff er mikilvirkur einleikari og kammermúsíkant sem kemur víða við á löngum verkalista sínum. Hún hefur lagt sérstaka rækt við helstu verk 20. og 21. aldarinnar, m.a. hljóðritað sellókonserta Wolfgangs Rihm og Ernst Toch fyrir NEOS-hljómplötufyrirtækið.

Tanja hefur leikið með fremstu hljómsveitum svo sem Tonhalle-hljómsveitinni í Zürich, Bæversku útvarpshljómsveitinni, Þýsku kammerfílharmóníunni í Bremen, Spænsku þjóðarhljómsveitinni, Fílharmóníuhljómsveit franska útvarpsins og Cincinnati-sinfóníuhljómsveitinni og unnið meðal annars með hljómsveitarstjórunum Lorin Maazel, Daniel Harding, Vladimir Ashkenazy, Dimitri Kitajenko, Paavo Järvi, Michael Gielen og Heinz Holliger.

Kammertónlist er snar þáttur í starfi Tönju og kemur hún reglulega fram með Lars Vogt, Leif Ove Andsnes, Alexander Lonquich, Antje Weithaas, Florian Donderer, Baiba og Lauma Skride sem og bróður sínum Christian Tetzlaff. Þá myndar hún tvíeyki með píanóleikaranum Gunillu Süssmann og hafa þær hljóðritað sellósónötur Brahms og verk eftir Sibelius, Grieg og Rakhmanínov fyrir CAvi-music hljómplötuútgáfuna og leika reglulega í tónleikasölum í Þýskalandi og Skandinavíu.

Á nýbyrjuðu tónleikaári verður hún gestur hljómsveitarinnar Philharmonia í London, Konunglegu Northern-hljómsveitarinnar, Skosku kammerhljómsveitarinnar, Þjóðarhljómsveitar  Loire-fylkisins í Frakklandi og Borgar- og NHK hljómsveitanna í Tókýó auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Á kammermúsíksviðinu bíða hennar tónleikaferðir með Lars Vogt og Christian Tetzlaff víðsvegar um Evrópu. Þá kemur hún fram með öðrum kammerhópum á tónlistarhátíðinni í Luzern og í Mozarteum í Salzburg.

Tanja Tetzlaff stundaði nám hjá Berhard Gmelin í Hamborg og Heinrich Schiff við Mozarteum í Salzburg. Hljóðfæri hennar var smíðað af Giovanni Baptista Guadagnini árið  1776.