EN

Þóra Einarsdóttir

Einsöngvari

Þóra Einarsdóttir sópransöngkona stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík og Guildhall School of Music and Drama. Hún steig fyrst á svið Íslensku óperunnar 18 ára gömul í einsöngshlutverkum í Rigoletto og Töfraflautunni og kom fram sem einsöngvari á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1995 á meðan hún var enn í námi. Hún var fastráðin við óperuhúsið í Wiesbaden í Þýskalandi um sjö ára skeið og hefur sungið við fjölmörg óperuhús um gjörvalla Evrópu. Þóra kemur reglulega fram á tónleikum á Íslandi og erlendis. Meðal hljómsveitarstjóra sem Þóra hefur unnið með eru Sir Neville Marriner, Osmo Vänskä og Vladimir Ashkenazy. 

Á ferli sínum hefur Þóra hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir söng og framlag sitt til tónlistar m.a. Dannebrog-orðuna og hina íslensku fálkaorðu. Þóra hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2016, fyrir flutning sinn á tveimur verkum Sibeliusar með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og árið 2017 fyrir túlkun á Tatjönu í Évgení Onegin eftir Tsjajkovskíj.