EN

Amy Beach: Berceuse

„Svei mér þá, þú ert bara einn af okkur strákunum!“ Svo hljóðaði mesta viðurkenning sem félagi hinnar bandarísku Amy Beach (1867-1944) í tónskáldastétt gat gefið henni, eftir frumflutning Gelísku sinfóníu hennar í Boston árið 1896.

Í ár er þess minnst að 150 ár eru liðin frá fæðingu Beach, sem var fyrsta konan sem fékk flutta eftir sig sinfóníu í Bandaríkjunum og telst til frumkvöðla í tónsköpun kvenna þar í landi. Það gekk þó ekki þrautalaust að fá að helga sig tónlist, sem hún hafði bæði hæfileika og köllun til að gera. Í fyrstu var móðir hennar treg til að leyfa hæfileikum hennar að njóta sín, þó að hún hafi samið sitt fyrsta lag við píanóið fjögurra ára. Beach fékk að lokum að fara í píanótíma og hún kom fyrst fram á tónleikum sextán ára. Tveimur árum síðar giftist hún sér 24 árum eldri manni í Boston sem krafðist þess að hún helgaði sig heimilinu, hún mátti ekki kenna á píanó og ekki koma fram sem píanóleikari nema einu sinni á ári, í góðgerðarskyni. Tónlistarþráin var þó söm við sig og Amy Beach fékk náðarsamlegast að semja tónlist undir nafninu Frú H. H. A. Beach. Eiginmaður hennar samþykkti þó ekki að hún sækti tíma í tónsíðum eða fengi kennara heim, því var hún að mestu leyti sjálflærð í faginu.  Eftir lát eiginmannsins hóf hún að spila opinberlega á ný, bjó um tíma og starfaði í Evrópu, studdi við ung bandarísk kventónskáld og skipulagði tónlistarnám fyrir skólabörn.

Tónsmíðar Amy Beach eru flestar í rómantískum stíl, hún samdi fjölda sönglaga, kórverk, kammerverk, nokkrar sinfóníur og messu. Berceuse er einn þriggja hluta verksins Þrjár tónsmíðar fyrir fiðlu og píanó frá 1898, einkar ljúft og rómantískt lag, sem hér er leikið á klarinett. Hljómur þess þykir mörgum svipa til mannsraddarinnar, en franska orðið berceuse merkir vögguvísa.