EN

Antonín Dvořák: Sellókonsert

Antonín Dvořák (1841–1904) var lítill heimsborgari og hvergi kunni hann betur við sig en í sveitum Bæheims. Það kom því vinum hans í opna skjöldu þegar hann síðla árs 1891 tók boði um að halda vestur um haf til New York og taka þar við stöðu skólastjóra National Conservatory of Music. Skólann, sem starfaði ekki nema í tvo áratugi, hafði auðkýfingsfrú að nafni Jeannette Thurber stofnað sex árum fyrr. Hugmyndin var nýstárleg: skólagjöld voru niðurgreidd og skólinn var opinn nemendum af öllum kynþáttum. Í september 1892 höfðu Dvořák og eiginkona hans hreiðrað um sig á East 17th Street, þar sem þau áttu heimili sitt næstu þrjú árin.  

Vesturheimsdvölin var um margt ánægjuleg. Fyrir utan skólastjórastarfið bauðst Dvořák að stjórna helstu hljómsveitum Bandaríkjanna, m.a. í nýbyggðri tónleikahöll Andrews Carnegie á 57. götu. Hann var miðpunktur athyglinnar hvert sem hann fór, kynntist frábærum tónlistarmönnum og sumarmánuðunum eyddi hann með samlöndum sínum í bæheimskum nýlendum Iowa-fylkis. En Dvořák var þjakaður af heimþrá og vorið 1895 hafði hann fengið nóg. Síðasta verkið sem hann samdi í New York var sellókonsert sem hann lauk við snemma árs við mikinn létti. „Guði sé lof, 9. febrúar 1895, klukkan hálf tólf að morgni,“ skrifaði hann þegar glíman var á enda.  

Dvořák hafði lengi haft efasemdir um að sellóið væri hentugt einleikshljóðfæri með hljómsveit. Miðsviðið var ágætt, en honum fannst tónn sellósins hljóma „eins og nefkennt væl á efsta sviðinu og drunur á því lægsta“. Honum snerist hugur eftir að hafa heyrt bandaríska sellistann og tónskáldið Victor Herbert, sem var fyrsti sellóleikari Metropolitan-hljómsveitarinnar, leika seinni sellókonsert sinn í Brooklyn vorið 1894. Sagt er að eftir tónleikana hafi Dvořák komið baksviðs, baðað út öllum öngum og sagt uppnuminn: „famos! [frábært!] famos! ganz famos!“  

Slíkur varð viðsnúningurinn í huga Dvořáks að í kjölfarið samdi hann einn mesta virtúósakonsert sem náð hefur almennri fótfestu í sellólitteratúrnum. Enda voru viðtökurnar glimrandi. Sagan segir að Robert Hausmann, sellisti Joachim-kvartettsins, hafi leikið konsert Dvořáks fyrir hinn aldna Johannes Brahms árið 1897. Þegar leiknum var lokið á Brahms að hafa sagt: „Af hverju sagði mér enginn að það væri hægt að semja svona sellókonsert? Hefði ég vitað það væri ég löngu búinn að semja einn slíkan!“

Ólíkt hinni víðfrægu sinfóníu „úr nýja heiminum“ er sellókonsertinn ekki tilraun til að blanda saman evrópskum og amerískum áhrifum. Þess í stað er engu líkara en að Dvořák sé þegar kominn á heimaslóðir í huganum, því að bæheimsku einkennin eiga huga hans allan. Fyrsti þáttur verksins er í hefðbundnu konsert-sónötuformi: hljómsveitin kynnir tvö aðalstef til sögunnar og því næst fær sellistinn að spreyta sig. En þótt ytra formið sé samkvæmt bókinni eru stefjaefnin langt frá því að vera hversdagsleg, því að sjaldan hitti Dvořák naglann jafn rækilega á höfuðið og hér. Fyrra stefið er þungbúið og hefur jafnvel yfir sér dálítinn jarðarfararblæ, með punkteruðum rytmum og útsetningu á lágu tónsviði. Seinna stefið, sem hornið kynnir til sögunnar, er svo ægifagurt að það hefði líklega tryggt vinsældir konsertsins þótt ekki hefði annað komið til. Úrvinnslan er stutt og einblínir aðallega á fyrra stefið, en það fer varla fram hjá neinum þegar ítrekunin hefst með hornstefinu fagra, nú leiknu fortissimo af fiðlum og blásurum áður en sellistinn tekur við.

Hægi kaflinn hefst á einföldu en hjartahlýjandi klarínettustefi sem minnir á Brahms, lærimeistara Dvořáks og velgjörðarmann. Eftir að stefið hefur hljómað nokkrum sinnum tekur við dramatískur millikafli, þar sem sellóið leikur m.a. hendingar úr sönglagi Dvořáks sem hafði verið í miklu uppáhaldi hjá Jósefínu mágkonu hans, Kéž duch muj sám (úr Fjórum sönglögum op. 82). Þremur áratugum fyrr hafði Dvořák verið yfir sig ástfanginn af Jósefínu Čermákovu, en þegar hún hryggbraut hann fann hann óvænta huggun hjá Önnu systur hennar. Þegar fregnir af veikindum Jósefínu bárust Dvořák-hjónunum í New York í ársbyrjun 1895 – hún lést í maí sama ár – tjáði Antonín söknuð sinn með því að flétta gamla lagbútinn saman við hæga konsertkaflann sem hann var með í smíðum. Konsertinum lýkur á kraftmiklum rondóþætti sem ber ótvíræðan tékkneskan keim. Undir lokin heyrist tregafullur söngur Jósefínu á nýjan leik, og upphafsstef fyrsta þáttar skýtur einnig upp kollinum áður en hljómsveitin lýkur þættinum með viðeigandi glæsibrag.