EN

Áskell Másson: Silfurfljót

Fyrsta hljóðfæri Áskels Mássonar (f. 1952) var klarínetta sem hann valdi að áeggjan föður síns. Byrjaði hann barnungur að læra á hljóðfærið hjá Gunnari Egilson í Barnamúsíkskólanum og síðar í Hljómskálanum hjá Páli Pamphichler Pálssyni. 

Áskell samdi sitt fyrsta hljómsveitarverk þegar hann var um 23 ára gamall og gaf því titilinn Hughrif. Hann umskrifaði þó verkið skömmu eftir það og samdi klarínettukonsert sinn uppúr því tónefni sem hann hafði unnið með í Hughrif. Þessi fyrsti klarínettukonsert Áskels varð verðlaunaverk tónskálda innan þrítugs, þegar það var kynnt á Rostrum-tónskáldaþinginu í París árið 1980. Höfðu verðlaunin mikil áhrif á framhald ferils hans sem sinfónísks tónskálds.

Hefur Áskell allan sinn feril skrifað reglulega músík fyrir klarínettu en eftir hann liggja hátt á annan tug einleiks- og kammerverka fyrir hljóðfærið. Einar Jóhannesson, sem einnig lærði ungur hjá Gunnari Egilson, hefur í marga áratugi orðið nokkurs konar rödd Áskels á hljóðfærið.

Verkalisti Áskels telur nú yfir 200 tónverk í nánast öllum formum. Verk hans heyrast reglulega í virtustu tónleikahúsum heims í flutningi nafntogaðra hljómsveita, einleikara og stjórnenda. Fílharmóníusveitin í New York, slagverkssnillingurinn Evelyn Glennie og hljómsveitarstjórinn Ivan Fisher, sem hér var í heimsókn fyrir skemmstu með hljómsveit sinni Budapest Festival Orchestra, eru stök dæmi um listamenn sem flutt hafa tónlist hans.

Nýi konsertinn, Silfurfljót, sem frumfluttur er hér í kvöld, leit loks dagsins ljós á árinu 2014, en verkið var skrifað á um það bil sex vikum, eftir margra ára undirbúning. Liðu rúmlega tveir áratugir frá því að verkið bar fyrst á góma milli Áskels og Einars þar til það lá fyrir, fullbúið.

Ólíkt fyrri konsertinum, sem kannaði flestar hliðar nútímatóntækni á hljóðfærið, þá er hér í þeim síðari lögð áhersla á hefðbundna tækni. Silfurfljót er í einum þætti og skírskotar titillinn fremur til heildarhljómblæs verksins en sérstaks náttúrufyrirbrigðis.