EN

Edvard Grieg: Pétur Gautur

Þegar Henrik Ibsen samdi Pétur Gaut árið 1867 kallaði hann verkið „dramatískt ljóð“ og ætlaðist ekki til þess að það yrði nokkru sinni sett á svið. Sjö árum síðar snerist honum hugur og gerði leikgerð úr ljóðinu, og sá fyrsti sem fékk að vita af þessum áformum skáldsins var Edvard Grieg (1843-1907), sem þá hafði fest sig í sessi sem mesta tónskáld Norðmanna. Í bréfi til tónskáldsins gaf Ibsen skýrt til kynna að tónlist yrði nauðsynlegur hluti uppfærslunnar og kom þegar með nokkrar uppástungur um hvar mætti nota tónlist og af hvaða toga hún mætti vera. Ludvig Josephson leikhússtjóri í Kristjaníu (síðar Osló) samþykkti að setja verkið upp, og Grieg fór að festa hugmyndir á blað. 

Tónsmíðarnar gengu hægt, Grieg hafði flest á hornum sér og kvartaði undan því að sér fyndist „hryllilega erfitt“ að semja tónlist við leikritið. Stundum virtist ekkert hvetja hann áfram annað en rausnarlegt loforð Ibsens um að þeir myndu skipta til helminga þóknun leikskáldsins fyrir uppfærsluna. Það tók Grieg hálft annað ár að semja leikhústónlisina við Pétur Gaut, sem tekur um 90 mínútur í flutningi þegar allt er talið með. Skömmu síðar tók Grieg saman tvær hljómsveitarsvítur úr verkinu sem fóru sigurför um heiminn og hafa ásamt píanókonsertinum tryggt orðspor hans um alla framtíð.

Leikhúsupplifun 19. aldarinnar var um margt ólík þeirri sem nú þekkist, og líklegt að margir myndu reka upp stór augu við þess konar melódrömu og hljómsveitarmillispil sem voru órjúfanlegur þáttur leikhúsmenningar þess tíma. Ibsen sjálfur var hæstánægður með tónlist Griegs og þótti hún „gera pilluna svo sæta að almenningur gat gleypt hana.“ Ekki hafa þó allir verið á sömu skoðun gegnum tíðina. Einn mesti ævisöguritari Ibsens á enskri tungu, Michael Meyer, kvartar yfir því að tónlistin breyti dramatísku leikritinu í „sykursætt Andersen-ævintýri,“ og sjálfur George Bernard Shaw sagði að í stað þess að nálgast hjarta og heila leikritsins væri tónlist Griegs yfirborðsleg og rislítil. Í réttu samhengi leikur þó varla nokkur vafi á því að upprunalega leikhústónlistin setur sterkan svip á leikrit Ibsens, gefur því þjóðlegan norskan blæ og skerpir á upplifun okkar af hinni örlagaríku sögu. 

Í fyrsta af fimm þáttum leikritsins er Pétur Gautur tvítugur að aldri. Við brúðkaup ungrar stúlku sem eitt sinn sýndi Pétri áhuga hittir hann Sólveigu og dregst að henni, en hún lætur sér fátt um finnast. Í ölæði sínu grípur Pétur brúðina og hleypur með hana upp til fjalla. Hljómsveitarforleikurinn sem er upphaf leikhústónlistarinnar teflir fram annars vegar hinum örgeðja Pétri og hins vegar hinni yfirveguðu, jafnvel tregafullu Sólveigu. Norsku dansarnir Halling og Springar skjóta einnig upp kollinum og hljóma einnig síðar í leikritinu leiknir á Harðangursfiðlu. 

Brúðarránið er fyrsti tónlistarkaflinn í öðrum þætti leikritsins, og hér grætur brúðurin Ingrid örlög sín, enda hefur Pétur kastað henni frá sér og snúið sér að öðrum hugðarefnum. Hann kynnist grænklæddri konu sem er dóttir Dofrakonungs. Saman ríða þau á svínsbaki til hallar konungs þar sem tröllin eru í uppnámi og róast ekki fyrr en Pétur lofar að kvænast dótturinni og taka upp tröllasiði. 

Dauði Ásu er eina tónlistaratriðið í þriðja þætti. Pétur hefur byggt sér kofa í skóginum og býr þar ásamt Sólveigu, en finnst hann ekki verðskulda ást hennar og laumast burt. Hann finnur Ásu, móður sína, þar sem hún liggur banaleguna. Þar sem hún gefur upp öndina hljómar tregafull og áhrifamikil strengjatónlist. Morgunstemning fjórða þáttar er eitt frægasta hljómsveitarverk Griegs og hefur yfir sér norskt yfirbragð jafnvel þótt hún hafi upphaflega verið samin sem forspil að fimmta atriði þáttarins, sem gerist í Sahara-eyðimörkinni. Í bedúínaþorpi einu er Pétri fagnað sem miklum spámanni og innfæddir dansa arabískan dans honum til heiðurs. Hér bregður Grieg fyrir sig austurlenskum áhrifum og er eftirtektarvert hversu eftirminnilega hann fangar arabastemninguna heilum 15 árum áður en Tsjajkovskíj lék svipaðan leik í Hnotubrjóti sínum. Dans Anítru er þokkafullur vals leikinn af strengjum og þríhorni, og Sólveig syngur ógleymanlegan söng sinn þar sem hún bíður þess að Pétur snúi aftur heim. 

Í fimmta þætti hljómar dramatísk náttúrumúsík þar sem Pétur heldur heim á leið og lendir í miklu hvassviðri á hafi úti. Síðasta lagið sem hljómar í leikhústónlist Griegs er Vögguvísa Sólveigar, sem hún syngur gömul og nærri því blind þar sem hún syngur Pétur í svefn. Löng og ævintýraleg ferð söguhetjunnar er á enda.