EN

Edward Elgar: Enigma-tilbrigðin

Edward Elgar (1857–1934) var helsta tónskáld síðrómantíska tímans á Bretlandi og tónlist hans hefur fyrir löngu fest rætur í ensku þjóðarsálinni. Að undanskildu fiðlunámi í æsku var Elgar sjálfmenntaður í tónlist, en faðir hans rak nótnabúð og tónlist var hluti af daglegu umhverfi piltsins allt frá fæðingu. Elgar leit alla tíð á sig sem utangarðsmann; hann var kaþólskur, af efnalitlu fólki, og jafnvel eftir að hann var orðinn þjóðhetja í Bretlandi átti hann það til að þjást af nístandi minnimáttarkennd. Það voru Enigma-tilbrigðin sem þeyttu Elgar upp á stjörnuhimin tónlistarinnar árið 1899 og ári síðar kom óratórían Draumur Gerontíusar, sem einnig naut gífurlegra vinsælda. Í kjölfarið fylgdu tvær sinfóníur, fiðlu- og sellókonsert, fleiri óratóríur og fjöldi annarra meistaraverka. Elgar samdi lítið eftir andlát eiginkonu sinnar árið 1920 en hljóðritaði þess í stað fjölmörg verka sinna fyrir EMI-plötuforlagið, m.a. fiðlukonsertinn með hinum 16 ára gamla Yehudi Menuhin árið 1932.  

„Enigma-tilbrigðin“ eru fjórtán talsins og hvert þeirra ber yfirskrift sem gefur til kynna að í tónlistinni sé Elgar að lýsa einhverjum úr eigin vinahópi.  Elgar útskýrði hugmyndina að baki verkinu í bréfi til vinar síns, A. J. Jaegers (sem á einmitt Nimrod-tilbrigðið), í október 1898: „Ég hef samið nokkur tilbrigði um frumsamið stef. Þau hafa veitt mér töluverða ánægju, þar sem ég hef gefið þeim yfirskriftir eftir nöfnum vina minna – þú ert Nimrod. Það er að segja, ég hef samið tilbrigðin þannig að hvert og eitt lýsir ákveðnum einstaklingi í hópnum – ég ímyndaði mér hvernig tónlist þið hefðuð samið, hvert og eitt – ef þið væruð svo vitlaus að vera tónskáld.  Útkoman á eftir að kæta ykkur sem eruð bakvið tjöldin, en þetta ætti ekkert að trufla almenna hlustandann sem ekkert veit.  Hvað finnst þér?“  

Upphaflega notaði Elgar aðeins upphafsstafi vina sinna eða torskiln gælunöfn sem yfirskrift hvers tilbrigðis fyrir sig. Árið 1927 var verkið gefið út á hólkum fyrir sjálfspilandi píanó, og þá ritaði hann ítarlegri lýsingar með verkinu. Ráðgátan felst því ekki lengur í því hverja af vinum sínum Elgar „túlkar“ í tónlistinni eða hvernig hann fer að því. Hún felst mun fremur í aðalstefinu sem liggur til grundvallar verkinu – og sem Elgar gaf yfirskriftina „Enigma.“ Í tónleikaskrá við frumflutninginn mátti finna eftirfarandi athugasemd tónskáldsins: „Ég mun ekki útskýra ráðgátu verksins – aðrir verða að geta sér til um hinn „myrka leyndardóm“ sem býr þar að baki. Verkið byggir á stefi sem ferðast í gegnum allt verkið, en heyrist aldrei. Eins og í sumum leikritum stígur aðalsöguhetjan aldrei á svið.“ Elgar gaf sjálfur í skyn að ósýnilega stefið væri e.k. tilbrigði eða gagnstef við þekkt lag.  Vinir hans stungu upp á God Save the King (Eldgamla Ísafold) eða Auld Lang Syne, en tónskáldið gaf ekkert út á það. Aðrar tilgátur hafa m.a. verið Rule Brittania (þá hugmynd átti Yehudi Menuhin fiðluleikari), stef úr Prag-sinfóníu Mozarts, B-A-C-H stefið og mörg önnur. Ekkert hefur þó tekist að sanna; að þessu leyti er verkið enn ráðgáta og verðskuldar nafngiftina ekki síður en fyrir hundrað árum.