EN

Grażyna Bacewicz: Forleikur fyrir hljómsveit

Grażyna Bacewicz (1909–1969) var eitt mesta tónskáld Póllands um miðja 20. öld og fyrsta pólska konan sem vakti athygli á heimsvísu fyrir tónsmíðar sínar. Bacewicz hóf hljóðfæranám hjá föður sínum og vakti mikla eftirtekt fyrir gáfur sínar; hún hélt sína fyrstu tónleika sjö ára og samdi sitt fyrsta tónverk 13 ára gömul. Árið 1928 hóf hún nám við Tónlistarháskólann í Varsjá þar sem hún lærði fiðlu- og píanóleik auk tónsmíða. Hún lærði einnig í París á árunum 1932–34, tónsmíðar hjá Nadiu Boulanger og fiðluleik hjá Carl Flesch. Hún var konsertmeistari Pólsku útvarpshljómsveitarinnar um skeið, og prófessor í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Lodz. Síðar var hún meðal stofnenda tónlistarhátíðarinnar Haust í Varsjá, gegndi stöðu varaforseta Pólska tónskáldasambandsins, var prófessor í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Varsjá og sat í dómnefndum virtra tónlistarkeppna víða um lönd, til dæmis Tsjajkovskíj-keppninnar í Moskvu árið 1958.

Bacewicz samdi verk af ýmsum toga, meðal annars sjö fiðlukonserta, fimm sónötur fyrir fiðlu og píanó, sjö strengjakvartetta og fjórar sinfóníur. Meðal kunnustu verka hennar er Konsert fyrir strengjasveit frá árinu 1950, þar sem hún gefur gömlum formum barokksins nýjan og spennandi blæ. Tónmál hennar er nýklassískt, einkennist af hrynrænni snerpu og í því má greina áhrif kennarans Boulanger, sem og pólska tónskáldsins Szymanowskis. Síðar á ævinni urðu verk Bacewicz tilraunakenndari; hún samdi undir tólftónahætti og notaði slembitækni í nokkrum verka sinna með eftirtektarverðum árangri.

Tónverk Bacewicz hafa ávallt verið í heiðri höfð í Póllandi en á undanförnum árum hefur orðið nokkur vakning í öðrum löndum og er það ekki síst að þakka pólska píanistanum Krystian Zimerman sem hefur hljóðritað verk hennar fyrir Deutsche Grammophon. Forleikurinn sem hljómar í kvöld er saminn árið 1943, mitt í hörmungum heimsstyrjaldarinnar síðari og ári eftir að Bacewicz fæddi einkadóttur sína. Einþáttungurinn einkennist af rytmískri snerpu en um miðbikið hljómar ljóðrænn kafli þar sem tíminn virðist standa í stað eitt augnablik áður en allt fer aftur á flug.