EN

Haukur Tómasson: From Darkness Woven

Haukur Tómasson (f. 1960) stundaði tónsmíðanám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni og Atla Heimi Sveinssyni og síðar við Tónlistarháskólann í Köln, Sweelinck-tónlistarháskólann í Amsterdam og Kaliforníuháskóla (San Diego) þaðan sem hann lauk meistaraprófi árið 1990. Haukur hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín og má þar nefna Tónvakakeppni Ríkisútvarpsins, Bjartsýnisverðlaun Brøstes og Íslensku tónlistarverðlaunin. Haukur hlaut Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2004 fyrir óperu sína Fjórði söngur Guðrúnar.

From Darkness Woven er nýjasta hljómsveitarverk Hauks og á meðal annars rætur í hugleiðingum tónskáldsins um vefstóla: Ef vefstólar væru hljóðfæri, hverskonar tónlist myndu þeir gefa frá sér? Verkið skiptist í nokkra hluta og meðan á tónsmíðavinnunni stóð notaði Haukur um kaflana orð sem tengjast vefnaði: uppistaða, sláttur, voð, skytta, ívaf. Sjálfur segir Haukur: „Að vefa getur verið svipað því að semja tónlist. Tónskáldið setur sér ramma, býr til „uppistöðu“ (eins konar efnisgrunn), hugsar um formið (hvað gerist) og þá kemur ívafið til skjalanna, myndin eða mynstrið. Það er reyndar oft talað um vef í tónlist, það hvernig raddir verks vefjast saman. Svo er það spuninn.“

From Darkness Woven er samið fyrir hljómsveit án málmblásara. Strengir eru í aðalhlutverki sem og margvíslegt tréslagverk. Einnig eru kljásteinar notaðir sem slagverkshljóðfæri, en þeir eru eins konar lóð sem notuð eru til að halda uppistöðu í vefstólum strekktri. Eldri hljómsveitarverk Hauks eru oft í björtum tónum og farið hratt yfir, en sum seinni verk hans (til dæmis Höfuðskepnur, 2012) hafa myrkara yfirbragð. From Darkness Woven sver sig í þessa ætt, það er í hægu tempói og litirnir dökkir rétt eins og heitið gefur til kynna: Ofið úr myrkri.