EN

John Adams: Road Movies

Road Movies eftir John Adams var frumflutt í Kennedy Center, Washington DC þann 23. október 1995. Robin Lorentz lék á fiðluna en við flygilinn sat Vicky Ray.

Um verkið segir tónskáldið: Titillinn „Road Movies“ er með öllu duttlungafullur, kannski sprottinn frá „stuðinu“ í píanópartinum sem á að vera leikinn með sveiflu (önnur og fjórða nóta í hverri fjögurra nótna röð er leikin örlítið seint).

Kafli I er afslöppuð ferð niður ekki ókunna götu. Efniviðurinn er endurtekinn í röð sem minnir á rondóform.

Kafli II er einföld hugleiðing um nokkur mótíf. Stök fígúra í auðu eyðimerkurlandslagi.

Kafli III er eingöngu fyrir fjórhjóladrif, stór eilífðarvél að nafni „40% Swing“. Á nútíma MIDI-hljóðgervlum er hægt að stilla sveifluna með næstum fáránlegri nákvæmni. 40% sér okkur fyrir svimandi, hossandi ferð, einhvers staðar á milli ragtime eftir Ives og lengri ferð Goodman-hljómsveitarinnar í kringum 1939. Það er mjög erfitt fyrir fiðluna og píanóið að halda sjó yfir þennan sjö mínútna kafla, sérstaklega í flóknum víxlhandarleik píanósins. Slakið á og látið okkur um keyrsluna. 

John Adams (f. 1947) er í röð þekktustu samtímatónskálda Bandaríkjanna. Tónmál sinfónískra verka hans og óperutónsmíða, sem oftar en ekki eru byggðar á raunsönnum sögulegum grunni, er einstakt, litríkt og tjáningarþrungið. Á verkalista hans sem spannar ríflega 30 ár er að finna verk sem eru í hópi þeirra nútímatónverka sem oftast hljóma í tónleikasölum á okkar tímum. Meðal þeirra eru Harmonielehre, Shaker Loops, El Niño, Chamber Symphony og The Dharma at Big Sur. Meðal annarra verka má nefna On the Transmigration of Souls, kórverk sem Adams samdi í minningu fórnarlamba hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 en fyrir það fékk hann Pulitzer verðlaunin árið 2003. Þekktasta ópera hans er Nixon in China sem fjallar um opinbera heimsókn Richards Nixon til Kína árið 1972.